132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Öryggi og varnir Íslands.

40. mál
[14:33]
Hlusta

Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar sem flutt er af fjórum þingmönnum Samfylkingarinnar og felur það í sér að Alþingi kjósi níu manna nefnd til að gera úttekt á stöðu öryggis- og varnarmála á Íslandi í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa í heiminum frá lokum kalda stríðsins. Gert er ráð fyrir því í þessari tillögu að nefndarmenn í slíkri nefnd verði níu, eins og fyrr sagði, og tilnefndir af þingflokkum í samræmi við þingstyrk hvers flokks.

Í þingsályktunartillögunni eru verkefni nefndarinnar tilgreind en þau eru í fyrsta lagi að gera úttekt á stöðu Íslands á alþjóðlegum vettvangi og skilgreina þá vá sem kann að steðja að landinu hvort sem er óbeint af völdum hernaðar annarra ríkja, af hugsanlegum árásum annarra ríkja, af völdum hryðjuverka eða af annars konar ógnum, svo sem mengunarslysum.

Í öðru lagi er það verkefni nefndarinnar að kanna hvernig sams konar úttekt hefur farið fram í nágrannalöndum okkar, m.a. í Noregi og á Írlandi, með það fyrir augum að nýta það sem vel er gert.

Í þriðja lagi að greina stöðu Íslands að alþjóðalögum, þ.e. gildi varnarsamningsins, hlutverk Íslands í Atlantshafsbandalaginu og hlutverk Íslands í Sameinuðu þjóðunum.

Í fjórða lagi á nefndin að fjalla sérstaklega um erindi og stefnu Íslands í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Í fimmta lagi að gera tillögur um ráðstafanir innan stjórnkerfisins til að tryggja nauðsynlegan viðbúnað og öryggi landsins.

Lagt er til að nefndin skili niðurstöðum sínum innan árs frá samþykkt þessarar tillögu með skýrslu til Alþingis.

Þessi tillaga var fyrst flutt á 130. löggjafarþingi og hún er nú endurflutt lítið breytt. Tillagan miðar að því að skapa þverpólitíska sátt um það hvernig öryggis- og varnarmálum Íslands verði best háttað. Eins og segir í greinargerð með tillögunni þarf sjálfstæð og framsýn utanríkisstefna á sviði varnar- og öryggismála að taka mið af nýjum ógnum og hættum sem að Íslendingum kunna að steðja í breyttri veröld. Hún verður einnig að vera í samræmi við önnur meginmarkmið íslenskrar utanríkisstefnu, t.d. á sviði viðskipta, menningar og þróunarsamvinnu.

Fyrir rúmum aldarfjórðungi, eða árið 1979, skipaði ríkisstjórn Íslands öryggismálanefnd með fulltrúum allra þingflokka sem starfaði hér um nokkurt árabil. Þessi nefnd starfaði líklega í ein 12 ár og gaf út ein 20 rit um öryggis- og varnarmál. Nefndin gerði m.a. ítarlega úttekt á öryggismálum þjóðarinnar og ég held að það sé brýnt að við eigum einhverja slíka nefnd sem sé þverpólitísk og geti stuðlað að sem víðtækastri sátt um þessi mál.

Á undanförnum árum hafa auðvitað verið gefnar út skýrslur um ákveðin viðfangsefni Íslands í utanríkismálum. Þannig skilaði sérstök nefnd um öryggis- og varnarmál skýrslu til utanríkisráðherra árið 1993 eftir að hafa starfað í tæpt ár. Sú nefnd var hins vegar eingöngu skipuð fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna. Síðan hafa ýmsar nefndir starfað að tilteknum afmörkuðum viðfangsefnum á vegum utanríkisráðuneytisins og komið með margar ágætar tillögur en þær hafa allar verið því marki brenndar, þessar nefndir, að þær hafa einvörðungu verið skipaðar fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna eða embættismönnum úr utanríkisráðuneytinu.

Ég vil í þessu sambandi reyndar geta eins starfshóps sem skilaði niðurstöðu í febrúar 1999 um öryggis- og varnarmál Íslands við aldamót. Í þeim hópi voru þrír embættismenn úr utanríkisráðuneytinu og þar var margt ágætlega gert en vandinn er kannski sá að því hefur ekki verið fylgt eftir. Sú úttekt sem unnin var af starfshópnum, þær tillögur sem voru lagðar fram — eftirfylgnina í formi stefnumótunar af hálfu hinna pólitísku aðila hefur vantað. Við leggjum til að skipuð verði níu manna pólitísk nefnd sem fylgi eftir þeim rannsóknum og skoðunum sem gerðar hafa verið á öryggis- og varnarmálum Íslands og móti stefnu í málunum.

Í inngangi í skýrslu starfshópsins sem skilaði af sér 1999 segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ýmsar niðurstöður hópsins þarfnast augljóslega frekari umræðu og samráðs við hlutaðeigandi stjórnvöld, enda æskilegt að víðtæk samstaða ríki um meginþætti öryggis- og varnarmála þjóðarinnar. Einnig telur starfshópurinn að stefna beri að því að sambærilegt mat verði tekið saman reglulega, t.d. á fimm ára fresti, en örar breytingar í alþjóðlegu umhverfi Íslands valda því að erfitt er að spá fyrir um framtíðina til lengri tíma litið.“

Síðan vísar hópurinn í skýrslu sem unnin var um íslensk öryggis- og varnarmál 1993 og segir að þeirri greinargerð sem unnin var 1999 sé ekki ætlað að leysa þá skýrslu af hólmi. Með öðrum orðum: Það hefur ekki verið unnin skýrsla um þessi mál og gerð á þessu úttekt eða rannsóknir síðan 1993 þrátt fyrir að það komi fram, m.a. hjá þessum starfshópi, að slíkt ætti að gerast á fimm ára fresti. Þess vegna segi ég: Það er ýmislegt búið að vinna, það hefur ýmislegt verið gert en því hefur einfaldlega ekki verið fylgt eftir.

Mig langar aðeins að drepa niður í þessa skýrslu víðar vegna þess að í henni kemur margt athyglisvert fram. Meðal annars er vakin athygli á því að varnar- og öryggishugtakið sé mjög breytt í þeim alþjóðlega heimi sem við lifum nú í eftir lok kalda stríðsins. Eins og segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Í fjölþjóðlegu varnarsamstarfi er nú minni áhersla lögð á hefðbundnar landvarnir gegn árás yfir landamæri, en nýjum, margslungnari hættum meiri gaumur gefinn. Útbreiðsla gereyðingarvopna, hryðjuverkastarfsemi, skipulögð glæpastarfsemi, ógn gegn hugbúnaðartækni, öfgastefna, þjóðerniserjur og barátta um takmarkaðar náttúruauðlindir, eru dæmi um slíkar hættur. Aðlögun íslenskra varnar- og öryggismála felur öðru fremur í sér að gripið verði til markvissra og raunhæfra aðgerða til að bregðast við þeim.“ — Það er að segja þessum nýju váboðum sem að við lifum við. — „Einnig gerir hún kröfu til aukinnar þátttöku Íslands í alþjóðlegu öryggismálasamstarfi. Síðast en ekki síst gefur dvínandi hernaðarógn við landið Íslendingum færi á að takast á hendur stærra hlutverk í vörnum landsins en áður.“

Það er reyndar eins og rauður þráður í gegnum þessa skýrslu að það er bent á hina dvínandi hernaðarógn við landið sem kalli á allt annars konar viðbrögð en hér hafa verið byggð upp á undanförnum áratugum í varnar- og öryggismálum.

Það er m.a. bent á það í þessari skýrslu, sem er svo sem kunnugt, að stórlega hefur dregið úr ógn við Ísland úr lofti. Í skýrslunni segir að árið 1991 hafi orrustuflugvélar á Keflavíkurflugvelli flogið í veg fyrir 26 sovéskar herflugvélar á 12 mánaða tímabili, þ.e. um 1990–1991. Á 12 mánaða tímabili flugu orrustuflugvélarnar í veg fyrir 26 sovéskar herflugvélar. Síðan hefur engin rússnesk herflugvél komið í námunda við landið, engin. Þetta eru orðin 14–15 ár. Samt sem áður virðist manni að í viðræðunum við Bandaríkjamenn, í varnarviðræðunum sem nú fara fram, sé megináherslan lögð á loftvarnirnar og þann viðbúnað sem þar þurfi að vera.

Nú kunna að vera einhver rök fyrir því, virðulegur forseti, að leggja megináherslu á loftvarnirnar og viðbúnað af þeim sökum en það vantar bara talsvert mikið upp á að færð séu fyrir því rök að það sé aðalsamningsmarkið, að áherslan liggi þar en ekki á einhverjum öðrum þáttum sem tengjast hinum tvíhliða varnarsamningi milli Íslands og Bandaríkjanna frá 1951.

Það eru auðvitað ýmsir váboðar í heiminum í dag sem er full ástæða til að gefa gaum og það er auðvitað grundvallaratriði í lífi hvers einstaklings og hverrar þjóðar að búa við öryggi og hafa tilfinningu fyrir því að búa í öruggu samfélagi og að vel sé séð fyrir öryggisþáttum. En falskt öryggi getur jafnvel verið verra en ekkert öryggi vegna þess að það tekur ekki mið af þeim raunveruleika sem við lifum í hverju sinni. Ég hef stundum tekið dæmi af almannavörnum sveitarfélaga. Ef þær nefndir stæðu þannig að málum að þær skilgreindu ekki þá vá sem væri fyrir dyrum í viðkomandi sveitarfélagi þá þættu þær ekki hafa unnið heimavinnuna sína. Það er gert ráð fyrir því að almannavarnanefndir sveitarfélaga skilgreini hver er váin. Eru það ofanflóð? Eru það sjávarflóð? Eru það jarðskjálftar? Eru það eldgos? Hvað er það sem að okkur steðjar, hverjir eru váboðarnir sem við verðum að bregðast við og byggja upp varnarkerfi gagnvart? Flest sveitarfélög fara í gegnum þessa vinnu og síðan skipuleggja þau sínar almannavarnanefndir með tilliti til þess og það gera líka almannavarnir ríkisins. Það vantar talsvert upp á það í okkar öryggis- og varnarmálum að þetta hafi verið gert, þ.e. að við skilgreinum váboðana og þann viðbúnað sem við þurfum að hafa innan lands til að takast á við þá.

Tillagan gerir ekki bara ráð fyrir því að við skilgreinum þá vá sem steðjar að okkur Íslendingum og hvernig við ætlum að bregðast við heldur líka hvaða stefnu og erindi Ísland eigi að fara með inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og hvert eigi að vera hlutverk okkar í því alþjóðasamstarfi sem við tökum þátt í, eins og í Atlantshafsbandalaginu og Sameinuðu þjóðunum. Ég held að þarna eigum við Íslendingar mörg sóknarfæri. Við getum verið erindrekar og boðberar nýrra hugmynda á alþjóðavettvangi, hugmynda sem reyndar hafa aðeins verið að ryðja sér til rúms í hinni alþjóðlegu umræðu en þurfa á einhverjum að halda í hinu alþjóðlega samstarfi sem eru tilbúnir að bera þær fram og berjast fyrir þeim. Þar ættum við Íslendingar að vera í fararbroddi og er ég þá sérstaklega að tala um nýtt, getum við sagt, öryggishugtak sem gengur út á mannöryggi en ekki bara þjóðaröryggi, þ.e. að berjast fyrir og sjá til þess að hið alþjóðlega samfélag standi vörð um mannöryggi en ekki bara þjóðaröryggi og virði mannhelgina ekki síður en land- eða lofthelgi hinna ýmsu ríkja. Mannöryggi og mannhelgi tekur mið af einstaklingunum hvar sem þeir búa og skyldu hins fullvalda ríkis til að vernda einstaklingana og öryggi þeirra og gert er ráð fyrir því að þegar hið fullvalda ríki bregst þeirri skyldu sinni þá hafi alþjóðasamfélagið skyldum að gegna við viðkomandi einstaklinga og beri að standa vörð um öryggi þeirra og mannhelgi. Þetta eru mál sem Íslendingar ættu að taka upp á sína arma og bera fram en hingað til hafa það öðrum fremur verið Kanadamenn og Finnar sem hafa sett þessar nýju hugmyndir um öryggi og mannhelgi á dagskrá og ég hef ekki orðið þess vör að mikið hafi verið gert með þessar hugmyndir í þeim skýrslum og ræðum sem utanríkisráðherra hefur flutt á undanförnum árum á Alþingi Íslendinga. Ég hef leitað eftir þessum hugmyndum í skýrslunum og ræðunum og ég hef leitað eftir því hvort þar sé eitthvað sagt frá þessu frumkvæði Kanadamanna og Finna en ég hef ekki fundið þess stað. Ég skal þó viðurkenna að mér kann að hafa yfirsést eitthvað í þeim efnum.

Virðulegur forseti. Ég held að það sé mjög tímabært að við setjum niður nefnd af þessu tagi og reynum að skapa sem mesta sátt um stöðu Íslands í varnar- og öryggismálum og hlutverk Íslands á alþjóðavettvangi vegna þess að stefna í þeim málum verður að lifa af ríkisstjórnir, hún verður að vera yfir einstakar ríkisstjórnir hafin og geta staðist þó að ríkisstjórnir komi og fari.