132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Seðlabanki Íslands.

44. mál
[15:24]
Hlusta

Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Jón Gunnarsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Rannveig Guðmundsdóttir, allt þingmenn Samfylkingarinnar.

Frumvarpið er svo sem ekki stórt í sniðum, er einar fjórar frumvarpsgreinar, efnisgreinar. En í því er aðallega gerð tillaga um tvennt.

Í fyrsta lagi er gerð tillaga um að ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands í peningamálum sé í höndum sérstakrar nefndar, peningastefnunefndar, en stjórn bankans að öðru leyti í höndum bankastjórnar.

Þá er gerð tillaga um að stöður bankastjóra í Seðlabankanum séu auglýstar opinberlega og þeir bankastjórar sem ráðnir eru til bankans skuli hafa reynslu og víðtæka þekkingu á peningamálum og öðrum efnahagsmálum. Í 3. gr. þessa frumvarps er síðan útfærsla á því hvert eigi að vera verkefni hinnar svonefndu peningastefnunefndar.

Þetta er sem sagt efnisinntak þessa frumvarps. Segja má að það sé að efni til komið úr tveimur áttum, getum við sagt. Í fyrsta lagi er með því tekið mið af breytingartillögum sem þingmenn Samfylkingarinnar gerðu þegar ný lög um Seðlabanka Íslands voru til umfjöllunar á Alþingi árið 2001. Þá lögðu þingmenn Samfylkingarinnar til að sett yrði á laggirnar sérstök peningastefnunefnd og voru þá með þá hugmynd að það yrði bara einn bankastjóri í bankanum.

Árið 2003 flutti ég ásamt fleirum frumvarp í þinginu þess efnis að auglýsa bæri stöður seðlabankastjóra og gera skyldi ákveðnar hæfniskröfur til þeirra sem til bankastjórastarfa veldust. Segja má að hér sé skellt saman í eitt frumvarp tveimur mismunandi tillögum sem Samfylkingin hefur flutt og varða Seðlabanka Íslands.

Markmiðið með þessu frumvarpi er að tryggja að faglega sé staðið, bæði að ráðningu seðlabankastjóra og beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands í peningamálum. Þannig verði stuðlað að sjálfstæði bankans bæði í reynd og ásýnd. Í greinargerðinni segir að gerð sé tillaga um að stöður seðlabankastjóra verði auglýstar og gerðar kröfur um reynslu og þekkingu á sviði peninga- og efnahagsmála. Þá er gerð tillaga um að ákvörðunarvald um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum verði flutt til sérstakrar peningastefnunefndar sem í sitji bankastjórn og þrír af yfirmönnum bankans á sviði mótunar og framkvæmdastefnu í peningamálum. Að öðru leyti verði stjórn bankans í höndum bankastjórnar. Nefndin haldi fundi a.m.k. átta sinnum á ári og opinberlega verði gerð grein fyrir ákvörðunum nefndarinnar og forsendum þeirra. Með þessu móti verður komið til móts við þá gagnrýni, sem m.a. hefur heyrst frá greiningadeildum bankanna og ýmsum hagfræðingum, að of langur tími líði milli vaxtaákvarðana bankans og ekki sé nægilega gegnsætt hvaða forsendur búi að baki þeim ákvörðunum. Efnislega byggist frumvarpið, eins og fyrr sagði, að hluta til á breytingartillögum sem þingmenn Samfylkingarinnar fluttu við umræðu um frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands á 126. löggjafarþingi og hins vegar á frumvarpi sem flutt var af þingmönnum Samfylkingarinnar á 130. löggjafarþingi.

Mig langar, virðulegur forseti, að tala aðeins um peningastefnunefndina sem við leggjum hér til. Ég held að sú hugmynd sé fyllilega tímabær núna. Hún kom vissulega til álita og ýmsir voru þeirrar skoðunar árið 2001 að það bæri að setja á laggirnar sérstaka peningastefnunefnd við Seðlabankann, eins og er í ýmsum seðlabönkum. Ég vil nefna seðlabanka Bandaríkjanna, breska seðlabankann og ég vil nefna sænska seðlabankann. Í öllum þessum seðlabönkum eru sérstakar peningastefnunefndir, fjölskipaðar nefndir sem funda með reglulegu millibili og taka ákvarðanir um hvernig stjórntækjum bankans skuli beitt, og þá fyrst og síðast auðvitað hvaða vaxtaákvarðanir eru teknar. Vextirnir eru öðru fremur helsta stjórntæki seðlabanka sem eru með verðbólgumarkmið eins og íslenski Seðlabankinn er með. Ýmsir voru sem sagt þeirrar skoðunar þegar árið 2001 að setja ætti slíka nefnd á laggirnar en þá var engu að síður ákveðið að fara þá leið að vera með þrjá bankastjóra og það væri bankastjórnin, þessir þrír bankastjórar, sem færi með stjórntæki bankans í peningamálum og láta á það reyna, a.m.k. enn um sinn, hvort ekki væri rétt að hafa þann hátt á.

Það var líka markmiðið með lögunum 2001 að auka sjálfstæði bankans. Það fól t.d. í sér að þótt ákvarðanir um það hverjir tækju sæti í stjórn bankans, hverjir yrðu bankastjórar Seðlabankans, færðust frá hinum pólitíska velli og meira yfir á hinn faglega vettvang, að þó svo að ráðherra, forsætisráðherra, skipi seðlabankastjóra yrðu það fyrst og fremst fagleg sjónarmið sem réðu því hverjir tækju sæti í bankastjórn Seðlabankans. Um þetta var talsvert rætt í þinginu 2001 þegar lögin voru sett. Fallist var á það í umræðunni þá að ekki skyldi að sinni gera kröfu til þess að staðan yrði auglýst eða til hennar gerðar sérstakar faglegar kröfur vegna þess að menn vildu láta á þetta reyna áður en stigin væru slík skref. Þar með var á það fallist af þingmönnum að ég held úr öllum flokkum að vera með þrjá seðlabankastjóra og gera ekki ráð fyrir að starfið yrði auglýst eða til þess gerðar sérstakar kröfur.

Nú hafa tveir seðlabankastjórar verið ráðnir síðan þessi lög voru sett og það verður að segjast eins og er að ekki verður betur séð en að ráðningarnar hafi ekki aðeins verið pólitískar að því leytinu til að það er ráðherra sem fer með valdið til þess að velja seðlabankastjóra heldur hafi þær líka verið pólitískar að því leytinu til að önnur staðan féll í hlut Framsóknarflokksins og hin í hlut Sjálfstæðisflokksins. Þetta segi ég án þess að ég ætli að varpa nokkurri rýrð á þá einstaklinga sem fyrir valinu urðu en mér finnst augljóst þegar horft er á þessar tvær ráðningar að þannig hafi verið staðið að málum að þessir tveir flokkar hafi einfaldlega skipt með sér þessum stöðum. Það segir mér að í þau tvö skipti sem reynt hefur á þetta sjálfstæði eftir að lögin voru sett hafi forsætisráðherra ekki staðist það próf að horfa fyrst og fremst á hina faglegu hæfni heldur látið pólitíkina fremur ráða. Ég held raunar að einmitt af þeim sökum sé enn ríkari ástæða en ella til að setja sérstaka peningastefnunefnd á laggirnar sem yrði fjölskipuð og í henni sætu að sjálfsögðu bankastjórarnir þrír en jafnframt þrír af yfirmönnum bankans á sviði mótunar- og framkvæmdastefnu í peningamálum.

Auðvitað má hugsa sér að í slíkri peningastefnunefnd sætu utanaðkomandi aðilar, þ.e. bankastjórarnir þrír og einhverjir utanaðkomandi aðilar. Ég held að mjög mikilvægt sé að þeir þrír utanaðkomandi aðilar sem settust inn í slíka nefnd væru óháðir öllum helstu hagsmunaaðilum á markaðnum. Það kann að reynast nokkuð snúið í okkar litla samfélagi að finna slíka hagfræðinga sem væru algjörlega óháðir þeim hagsmunahópum sem eru að takast á í íslensku samfélagi nema þeir væru sóttir inn í háskólana. Það er auðvitað eitthvað sem má skoða en er þó ekki gerð tillaga um hér að þessu sinni.

Ég held að það skipti líka verulegu máli varðandi þetta frumvarp að gerð er tillaga um að peningastefnunefndin hittist a.m.k. átta sinnum á ári á fyrir fram tilkynntum dagsetningum og hún sendi frá sér rökstuðning fyrir þeim ákvörðunum sem hún tekur. Þetta eykur á gegnsæið í stjórn peningamála og er að mínu viti mjög mikilvægt.

Þannig var t.d. í sumar að þá hittust bankastjórar Seðlabankans til að ræða stöðuna í efnahagsmálum og til að velta fyrir sér hvort taka ætti ákvarðanir í vaxtamálum. Af þeim fundum vissi í sjálfu sér enginn og í haust þegar tekin var ákvörðun um hækkun stýrivaxta Seðlabankans sögðu ýmsir hagsmunaaðilar í samfélaginu að það væri undarlegt að þeir sem færu með þessi mál í Seðlabankanum skyldu bara hafa farið í sumarfrí, peningastefnan hefði bara farið í sumarfrí og ekkert hefði verið aðhafst í þessum málum í Seðlabankanum mánuðum saman. Sú var ekki raunin eftir því sem ég best veit en hins vegar var gegnsæið ekki meira en svo að menn vissu ekki af því að verið væri að ráðslagast um þessi mál og taka ákvarðanir, sem voru þá einfaldlega ákvarðanir um að hækka ekki vexti á þeim tíma.

Þarna er sem sagt lagt til að haldnir séu fundir a.m.k. átta sinnum á ári að lágmarki á tilteknum dögum. Niðurstaða af þeim fundum skuli rökstudd þannig að öllum megi ljóst vera hver sé ákvörðun peningastefnunefndarinnar og hvaða forsendur liggi að baki henni. Ég held að það sé tímabært að gera þessa breytingu og veit raunar að menn hafa aðeins velt því fyrir sér í Seðlabankanum hvort slíkt ætti að gerast.

Í viðtali sem birtist við þáverandi aðalhagfræðing Seðlabankans, Má Guðmundsson, í Hagmálum, 42. árgangi frá 2003, er m.a. fjallað um Seðlabankann og sjálfstæði hans og þær breytingar sem gerðar voru á Seðlabankanum með lögunum árið 2001. Þar er m.a. verið að ræða um mikilvægi þess að Seðlabankinn sé sjálfstæður og að hann hafi trúverðugleika, þ.e. að menn trúi á sjálfstæði Seðlabankans og menn trúi að ákvarðanir hans muni standa og hann sé einarður í því verkefni sem honum er falið. Sjálfstæði bankans verður að vera bæði í reynd og ásýnd og er raunar mjög mikilvægt að hagsmunaaðilar í samfélaginu hafi trú á því að bankinn starfi sjálfstætt. Í þessu viðtali við Má Guðmundsson, sem þá var yfirhagfræðingur Seðlabankans en er nú kominn til Sviss, segir hér, með leyfi forseta:

„Trúverðugleikinn er afar mikilvægur. Hann er hins vegar tvenns konar, annars vegar trú á því að Seðlabankinn meini það þegar hann segist ætla að ná tilteknu markmiði og hins vegar trú á því að hann hafi hæfni og getu til að ná þessu markmiði. Það er mjög mikilvægt að þessi trú sé fyrir hendi því að hún hjálpar Seðlabankanum að ná þessum markmiðum. Sé trúin á því ekki fyrir hendi getur Seðlabankinn þurft að beita harkalegri aðgerðum en ella til að ná markmiðum sínum.“ — Svo segir hann hér: „Væri t.d. ósátt í þjóðfélaginu um verðbólgumarkmið Seðlabankans eða ósamkomulag milli ríkisstjórnar og Seðlabanka um verðbólgumarkmiðið værum við komin í erfiða stöðu.“

Með öðrum orðum, hann leggur áherslu á mikilvægi þess að sátt sé um Seðlabankann og þau markmið sem hann hafi. Það sé trú á því að Seðlabankinn meini það sem segist ætla að gera og hann hafi hæfni og getu til að gera það sem hann segist ætla að gera.

Þetta viðtal er að mörgu leyti mjög athyglisvert vegna þess að í því er farið yfir aðdraganda þess að lögin um sjálfstæði Seðlabankans voru sett árið 2001. Í viðtalinu segir m.a. að aðdragandann að þessum breytingum megi að hluta rekja til þeirra aðstæðna sem sköpuðust í framhaldi þess að fjármagnshreyfingar til og frá landinu voru gefnar fjrálsar en því ferli lauk árið 1995. Síðan segir í þessu viðtali, með leyfi forseta, að rekja megi þessar breytingar til þess „að innan Seðlabankans höfðu farið fram ítarlegar athuganir á því hvort myndi henta Íslandi betur til lengdar að búa við gengismarkmið eða verðbólgumarkmið.“ — Áður hafði stjórn peningamála miðast við að hafa gengismarkmið, að halda gengi krónunnar á tilteknum stað. Svo segir: „Ýmsir þekktir alþjóðlegir hagfræðingar lögðu einnig lóð á þessa vogarskál auk hagfræðinga í Háskóla Íslands, OECD og hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.“

Svo segir, með leyfi forseta, sem mér finnst sérstaklega athyglisvert:

„Flestar þessar athuganir leiddu í ljós að heppilegt væri fyrir Ísland að taka annaðhvort upp fljótandi gengi og verðbólgumarkmið“ — eins og gert var — „eða fara alveg í hina áttina, leggja myntina af og taka upp annan gjaldmiðil. Sá kostur var hins vegar ekki uppi á borðinu nema með aðild að Evrópusambandinu.“

Ég hef sagt hér áður í ræðustól, virðulegur forseti, að núna þessi missirin reyni á hvort það fái staðist að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil í svo litlu hagkerfi sem Ísland er, svona litlu, opnu alþjóðlegu hagkerfi eins og Ísland er. Það reynir á það næstu missirin hvort það fái staðist eða ekki, það reynir mjög á getu Seðlabankans til þess að beita stjórntækjum bankans og það reynir mjög á hæfni ríkisstjórnarinnar til þess að beita ríkisfjármálunum með þeim hætti að dragi úr sveiflum í hagkerfinu en auki þær ekki eins og flestar aðgerðir ríkisstjórnarinnar gera núna.

Seðlabankinn er í mjög vandasamri stöðu að mörgu leyti. Það er mjög horft til þess sem hann er að gera eins og kom fram við síðustu vaxtaákvörðun bankans en þá kom fram hjá ýmsum hagsmunaaðilum í samfélaginu og greiningardeildum bankanna að að vissu leyti byggi Seðlabankinn við ákveðinn brest á trúverðugleika, ekki væri full trú á getu bankans til að takast á við verðbólgumarkmiðin með afgerandi hætti. Það mun reyna enn frekar á það á næstu mánuðum, en næsta vaxtaákvörðun bankans verður væntanlega í byrjun desember. Og það mun auðvitað skipta verulegu máli hvaða ákvörðun verður tekin þá, það mun verða mjög til þess horft vegna þess að nýr aðalbankastjóri er kominn í bankann sem óneitanlega kemur úr mjög pólitísku umhverfi og með mjög pólitísk sjónarmið inn í bankann.

Þessi tillaga lýtur öðru fremur að því að tryggja að faglega sé staðið annars vegar að ráðningum í stöður í Seðlabankanum og hins vegar að beitingu stjórntækja Seðlabankans í peningamálum þannig að bankinn sé sjálfstæður bæði í ásýnd og reynd.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa miklu fleiri orð um frumvarpið að svo stöddu. Þetta er einfalt frumvarp en ég held að það geti skipt máli fyrir bankann og geti kannski auðveldað honum að takast á við það verkefni sem hann hefur.