136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

hreyfiseðlar í heilbrigðiskerfinu.

8. mál
[15:02]
Horfa

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma inn á nokkur atriði sem hv. þm. Ásta Möller nefndi og þakka henni fyrir að taka undir þessa tillögu. Það er rétt sem hún nefndi að það skiptir máli að fólk fái seðil í hendurnar þar sem er áætlun um hvernig það eigi að hreyfa sig alveg eins og þegar fólk fer til læknis og fær lyfseðil til að fá lyf. Hér fær það hreyfiseðil þar sem sagt er: Farðu í sund þrisvar í viku. Þú átt að synda í ákveðið langan tíma. Síðan ferðu í líkamsrækt og hreyfir þig eða ferð í göngutúr, eða það sem læknirinn telur að skili bestum árangri hjá viðkomandi sjúklingi. Það nægir ekki að segja: Farðu út og hreyfðu þig og farðu svo að borða hollan mat. Það þarf að setja upp „prógramm“, áætlun fyrir fólk til að það fari eftir þessu. Ástæðan fyrir því að við nefnum námskeið fyrir þá sem fylgja hreyfiseðlum eftir er sú að á hinum Norðurlöndunum er talið að þeir sem taka við fólki sem fengið hefur hreyfiseðil og hjálpi því að fara eftir seðlinum, þurfi á því að halda. Það er ekki mikið nám heldur er um að ræða námskeið fyrir þá sem taka við hreyfiseðlahandhöfum, fylgja eftir meðferðinni og fylgjast jafnvel með því að farið sé eftir seðlinum.

Í heilbrigðiskerfinu hefur þetta ekki verið beinn valkostur þótt læknar hafi getað leiðbeint fólki varðandi þessi mál en hefðbundnu leiðirnar eru aðgerðir eða lyf eða aðrar læknisfræðilegar leiðir. Það er ekki venjan að fólk reyni markvisst af eigin atorku að ná heilsu. Ef hreyfiseðlakerfi væri komið á innan heilbrigðiskerfisins væri um viðurkennda leið að ræða.