137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

fyrningarleið í sjávarútvegi.

[10:59]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að við verðum að hafa í huga þegar við ræðum sjávarútvegsstefnuna að það hefur engin sátt verið í þjóðfélaginu um þá leið sem farin hefur verið í sjávarútvegi. Staðan er einfaldlega sú að hún hefur breyst hér í þingsal, það er meiri hluti fyrir því að skoða fyrningarleiðina. Það liggur alveg skýrt fyrir í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar. (Gripið fram í.)

Það liggur alveg skýrt fyrir í stjórnarsáttmálanum að menn eru að ræða þessa fyrningarleið og það eru ákveðin ákvæði um hana í stjórnarsáttmálanum. Hitt er annað mál að við höfum átt nokkra fundi með Landssambandi íslenskra útvegsmanna, eina þrjá fundi, þar sem við höfum rætt hvernig á þessu máli verði tekið. Það er fullur vilji fyrir því að allir hagsmunaaðilar komi að borðinu og ég veit ekki betur en að sjávarútvegsráðherra sé að vinna þá hugmynd til þess að athuga hvort einhver sátt geti náðst um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og sjávarútvegsstefnunni.

Ég tel nauðsynlegt að við tökum okkur ekki langan tíma í að reyna að kortleggja stöðuna, greina vandann og þá valkosti sem fyrir hendi eru. Það er nú á borði hæstv. sjávarútvegsráðherra að vinna það. Ég á von á því að á næstu dögum komi erindisbréf frá sjávarútvegsráðherra til allra hagsmunaaðila um að setjast nú að borði og athuga hvort hægt sé að ná sátt í þessu máli. En það er alveg ljóst að með því að setjast að borðinu ýta stjórnarflokkarnir ekki til hliðar þeim hugmyndum sem þeir hafa um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.

En við viljum skoða alla möguleika í þessu efni, athuga hvort ekki sé flötur á því að ná sátt um málið og höfum í huga að það er engin sátt um fiskveiðistjórnarstefnuna eins og hún er. (Forseti hringir.) Það þarf að breyta henni.