137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[14:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla, með leyfi forseta, að fá að lesa hér frétt af mbl.is. Fyrirsögnin er: Icesave-lán til sjö ára á 5,5% vöxtum.

„Íslenska ríkið þarf ekki að byrja að greiða af höfuðstól láns sem Bretar veita því vegna Icesave-deilurnar fyrr en eftir sjö ár.“ — Á þeim tíma þarf þó að greiða vexti af skuldabréfi sem gefið verður út með ríkisábyrgð. — „Heildarskuldbindingar Íslands vegna Icesave verða upp á 650 milljarða króna samkvæmt samkomulaginu og vextirnir 5,5 prósent á ári, samkvæmt heimildum mbl.is.“

Þessi frétt er lengri, virðulegur forseti. Þetta er nákvæmlega það sem þingmönnum var kynnt í morgun og við vorum beðin um að gæta trúnaðar sem við höfum virt. Við höfum kallað eftir því, og ég tek undir með þeim sem hér hafa talað, að fá að ræða þessi mál á Alþingi við hæstv. ríkisstjórn. Nei, hæstv. ríkisstjórn kýs að koma þessu fyrst á mbl.is en vill ekki ræða málið á Alþingi.