137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[14:16]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Það er ótrúlegt að upplifa það sem nýr þingmaður og mér heyrist að eldri þingmenn með meiri reynslu eigi svolítið erfitt með að trúa því að við þurfum að standa hér og krefja hæstv. forseta um að fresta fundi til að taka mál á dagskrá. Ég hélt sjálfur í upphafi sumarþings að hér yrðu viðhöfð önnur vinnubrögð. Það kom mér því satt best að segja nokkuð á óvart að hér yrði skipað í 12 fastanefndir en ekki til að mynda sex nefndir sem mundu ein eða tvær fjalla um Icesave-skuldbindingar og önnur um peningastefnu og sú þriðja um efnahags- og fjármál ríkisins. Að menn mundu einhenda sér í það í þinginu að vinna samviskusamlega að öllum störfum en hætta við og leggja til hliðar öll minni háttar mál sem hér hafa síðan verið á dagskrá og þingmenn látnir vera uppteknir við að hlaupa út og inn af fundum til að afgreiða mál, Evróputilskipanir og annað í þeim dúr (Forseti hringir.) sem koma okkur akkúrat ekkert við. Ég bið hæstv. forseta (Forseti hringir.) um að fresta fundi og svo við getum tekið til óspilltra málanna að hjálpa þjóðinni út úr þeim kröggum sem hún hefur komið sér í. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)