137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[14:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Ég kem upp og tek undir það sem menn hafa beðið hér um, að forseti virði það að hún er forseti allra þingmanna og fresti fundi. Ég skil í raun og veru ekki af hverju það er ekki hægt að verða við þeirri ósk að fresta fundi í stuttan tíma, kalla saman þingflokksformenn og fara yfir stöðuna sem komin er upp í þinginu. Mér er það algjörlega óskiljanlegt þar sem margbúið er að biðja um það.

Svo sagði hæstv. forsætisráðherra í morgun þegar hv. þm. Þór Saari spurði hvort Icesave-samningarnir yrðu kynntir fyrir þinginu þegar þeir lægju fyrir, að þeir yrðu a.m.k. kynntir fyrir þingflokkunum. Ég velti því fyrir mér eftir það sem fór fram á þingflokksfundum í morgun þar sem málið var örlítið reifað hvort hæstv. ríkisstjórn hefði ekki alveg eins getað látið bréfdúfu fljúga fram hjá gluggunum og kallað það kynningu fyrir þingflokkana.