137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna það að á alllöngum ferli mínum sem stjórnmálamaður hef ég aldrei upplifað það ástand sem hér hefur verið í dag, að ég hafi verið kallaður á fund, upplýstur þar að hluta til og bundinn trúnaði um að tala um það mál sem síðan geisar í fjölmiðlum og fer hér um allt og ég hef enga heimild til þess að tala um málið. Ég hef heldur aldrei upplifað það að í stjórnmálum séu tveir aðilar, annar aðilinn sem ekki fær að koma að málum og ekki ræða þau en hinn aðilinn virðist hafa aðgang að öllum upplýsingum, tekur ákvarðanir, fer með þær í fjölmiðla og jafnvel skuldbindur íslenska þjóð til slíkra (Gripið fram í.) stærðargráða og hluta sem ég má víst ekki tala um en eru óstjórnlegar. (Forseti hringir.) Ég get því bara ekki orða bundist um af hverju við erum höfð hér (Forseti hringir.) nánast eins og ginningarfífl inni í sal í staðinn fyrir að fara út og reyna að vinna eitthvað af viti.