139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:24]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Í maí árið 2008 tók ég þátt í því á Alþingi, þá formaður menntamálanefndar Alþingis, að setja ný lög um grunnskóla. Í markmiðsákvæði þeirra laga var kveðið á um hvernig starfshættir grunnskóla skyldu vera. Þar segir að þeir skyldu mótast af umburðarlyndi og kærleik, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.

Nú er það svo að í Reykjavíkurborg eru komin til valda öfl sem virðast ætla að vinda ofan af þeim starfsháttum sem lögfest var á Alþingi árið 2008 að skyldu viðhafðir, þ.e. að starfshættir grunnskóla skuli nú mótast af einhverju öðru en kristinni arfleifð íslenskrar menningar. Tillögur þar um hafa komið fram af hálfu mannréttindanefndar Reykjavíkurborgar. Þessar tillögur hafa fengið hörð viðbrögð víðs vegar í samfélaginu enda má halda því fram að nái tillögurnar fram að ganga feli þær í sér grundvallarbreytingar á því skólastarfi sem við þekkjum. Þar fyrir utan sýnist mér, verði þessar tillögur að veruleika, þær brjóta gegn markmiðsákvæðum laganna eins og ég lýsti þeim áðan. Ég fæ ekki betur séð en að tillögurnar fari á svig við lög.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Skúla Helgason, í ljósi þeirra hugmynda sem fram hafa komið varðandi skólastarf (Forseti hringir.) í Reykjavík, hvort hann telji ekki að það sé (Forseti hringir.) ástæða til að kalla saman fund í menntamálanefnd Alþingis til að fara yfir þau áform sem fram hafa komið (Forseti hringir.) hjá stjórnendum Reykjavíkurborgar.