139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[16:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við séum öll sammála um þetta og þetta hefur svo oft verið rætt hér. Vítin eru til að varast þau, af því að hv. þingmaður nefnir tónlistarhúsið sem er sennilega frægasta dæmið sem fór af stað með þessum hætti. Menn hafa verið að reyna að taka sig á. Ég bendi á að áður en lagt var af stað og áður en nokkrar skuldbindingar féllu til með áformaða byggingu nýs Landspítala, voru sett hér lög um það, þannig að Alþingi rammaði það inn með lögheimildum að heimilt væri að fara í þann undirbúning. Auðvitað er það miklu vænlegri aðferðafræði og ég tek undir það, svo kemur málið aftur hingað. Sama á við um samgönguframkvæmdirnar. Hér voru sett sérstök lög sem heimila stofnun félaga til þess að annast um þær o.s.frv. þannig að sjálfsögðu er öll festa til bóta í þessum efnum. Ég tel að það sé nú allt að fara í rétta átt, samanber þó þann árangur sem er að nást, en það má gera betur.

Ég vil svo segja að lokum, og væri nú gaman að hafa einhvern tímann tvo klukkutíma til að ræða um samspil skatta, hækkana, niðurskurðar og eftirspurnar í hagkerfinu og hvaða áhrif það hefur allt saman. Ég er ekki af þeim skóla sem trúir þeim kenningum að skatttekjur hafi sjálfkrafa kælandi áhrif á hagkerfið óháð því hverjar efnahagslegar aðstæður eru og óháð því hvað gert er með fjármunina. Ég held að það sé þvert á móti þannig eins og núna er, að ef þeirra er aflað frá aðilum sem hafa rúman fjárhag og þeir eru færðir í gegnum ríkissjóð og fara beint til ráðstöfunar aftur í gegnum samneysluna til greiðslu launa, kaupa á vörum og þjónustu, hafa þeir örvandi áhrif frekar en kælandi áhrif í hagkerfinu. Það er minn skóli í þessum efnum. Það er að sjálfsögðu háð eftirspurnarstiginu í samfélaginu og hvernig undirliggjandi aðstæður eru. Það er ekki náttúrulögmál.

En ég er algerlega sannfærður um að við núverandi aðstæður hefur það frekar þau áhrif en hitt. Nærtækast er að benda á að ef það dregur úr sparnaði sem annars væri hjá þeim sem best standa, ef það færir fjármunina í umferð og fer til greiðslu launa, kaupa á þjónustu og vöru, hefur það frekar örvandi áhrif en kælandi.