141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:14]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hv. þm. Þór Saari um að það er ekkert óhugnanlegt við umhverfisskoðanir eða umhverfisvernd Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í.) Vinnan var einmitt sett af stað til að reyna að komast að málamiðlun í einu mikilvægasta máli þjóðarinnar, þ.e. rammaáætluninni.

Búið er að koma málinu í algerar ógöngur af núverandi meiri hluta. Rammaáætlun, hin víðtæka sátt og málamiðlun sem átti að ná um forgangsröðun í virkjunarkostum okkar og vernd og nýtingu, er í uppnámi. Við sjálfstæðismenn leggjum til að málið fari aftur til faghópanna. En hverjir hafna því að málið fari aftur í faglega meðferð? Það eru vinstri flokkarnir sem ríkja í landinu. Þeir ætla að stoppa það af því að þeir geta ekki afgreitt það nema með pólitískum fingraförum. (Forseti hringir.) Við leggjum til mjög málefnalegar tillögur á þessum nótum og þingið ætti að sjá sóma sinn í því að afgreiða þær.

Málið (Forseti hringir.) á auðvitað að fara til atvinnuveganefndar, það hefur verið þar og atvinnuveganefnd er best til þess fallin að afgreiða það sem fyrst.