141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[16:35]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárrétt, þessa breytingu er að finna á milli þinga í frumvarpinu. Við getum sagt að það sé hluti af því að leggja fram einhverja málamiðlun að nálgast það þannig að maður horfi á það sem staðreynd að kannski til margra ára litið sé mögulegt að hægt sé að leysa málin með öðrum hætti en að hafa völlinn í Vatnsmýrinni. En þá er það vilji flutningsmanna að hann verði eftir sem áður hér í höfuðborginni.

Það er ekkert leyndarmál að bullandi pólitískur ágreiningur er um þetta mál, m.a. milli mín og Gísla Marteins Baldurssonar borgarfulltrúa, og ég tel að þann ágreining sé reyndar að finna í öllum flokkum. Fleiri borgarfulltrúar hafa verið sama sinnis innan Sjálfstæðisflokksins og Gísli Marteinn Baldursson og það er bara þannig. Við tökumst bara á um þetta mál. En ég tel að mikill meiri hluti sé hér á þinginu fyrir því að málum verði háttað þannig til lengri tíma litið að völlurinn verði í Reykjavík. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Mörður Árnason, sem ég geri ráð fyrir að vilji sjá þennan völl flytja í framtíðinni, finni marga þingmenn og jafnvel borgarfulltrúa innan Samfylkingarinnar sem eru honum ekki sammála. Þannig er það bara með þetta mál.

Þetta mál þarf að leiða til lykta. Ekki verður búið við það óvissuástand sem hér er, ekki verður búið við þessar ömurlegu aðstæður sem við bjóðum farþegum og starfsfólki upp á úti á Reykjavíkurflugvelli. Þetta mál er lagt fram til að taka af allan vafa um það hvernig málum verði hagað hér á næstu árum.