142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

eftirlit bandarískra stjórnvalda með íslenskum borgurum.

[11:08]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Í okkar nútímasamfélagi þykir það sjálfsagt mál að stundaðar séu víðtækar njósnir á almennum borgurum og fulltrúum þjóðarinnar.

STASI-aðferðir eru ástundaðar í óljósu margfeldi, en það er kannski bara allt í lagi því njósnirnar fara fram á internetinu og það eru ekki raunheimar og því varla raunverulegt, eða hvað? Ólíkt STASI, sem á sínum tíma var víðtækasta eftirlitskerfi sem framfylgt hefur verið í raunheimum, þar sem njósnað var um alla borgara Austur Þýskalands, ganga njósnir NSA enn lengra enda hafa njósnir þeirra gagnvart almenningi engin landamæri og ná yfir alla sem nota stafræna miðla á einn eða annan hátt. Fram hefur komið að PRISM, njósnaveita NSA, visti og samkeyri upplýsingar um fólk, bæði frá símafyrirtækjum og netfyrirtækjum eins og Google, Yahoo, Facebook, Skype, Apple og Microsoft.

Enn hafa ekki komið fram neinar yfirlýsingar frá íslenskum stjórnvöldum í tengslum við leka þá sem Edward Snowden ber ábyrgð á að hafi komið fyrir sjónir almennings. Í því ljósi langar mig að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hver hennar afstaða sé gagnvart þeim möguleika að um íslenska borgara hafi verið njósnað. Hefur ráðherrann sent bandarískum og breskum yfirvöldum fyrirspurn um hvort fylgst hafi verið með Íslendingum á sama hátt og fylgst hefur verið með öðrum borgurum í Evrópu? Hefur hæstv. ráðherra farið fram á svör við því hvort Íslendingar séu líka fórnarlömb NSA-prógrammsins og starfshátta bresku njósnastofnunarinnar GCHQ? Ef svarið er nei þá spyr ég hvort ráðherrann telji ekki nauðsynlegt að fá fram þessar upplýsingar. Þögn og andvaraleysi íslenskra yfirvalda er yfirþyrmandi ef hafður er í huga alvarleiki málsins.

Ef í ljós kemur að Íslendingar hafi orðið fyrir njósnum af þessu tagi, telur ráðherra þá ekki að krefja þurfi bandarísk og bresk stjórnvöld um útskýringar á háttalagi sínu og tryggja eins og kostur er að ekki verði brotið á friðhelgi einkalífs Íslendinga í framtíðinni? Því væri gagnlegt að vita hvernig ráðherrann ætlar að beita sér í því samhengi. Þá langar mig að vita hvaða lög vernda rétt almennings á Íslandi gegn eftirliti erlendra yfirvalda og hvert fólk geti leitað sem telur að á sér hafi verið brotið. Því miður er það svo að engu landi og engum alþjóðasamtökum hefur tekist að finna leið til að verja borgara sína gagnvart NSA. Hyggst hæstv. innanríkisráðherra beita sér fyrir alþjóðasamstarfi til að auka líkur á að ráðherrann geti sinnt skyldum sínum til að verja borga landsins fyrir erlendum njósnasamtökum?

Ég er meðvituð um að núverandi ríkisstjórn vill sem minnst samsama sig við Evrópusambandið, en þar er þó horfst í augu við alvarleika málsins. Sú hugmynd að slá stafrænni og lagalegri skjaldborg um Evrópu er eitthvað sem heyrist nú í sívaxandi mæli. Hugmyndin var mikið rædd á ráðstefnu um netöryggismál sem ég tók þátt í fyrr á þessu ári í Brussel. Þá var ekki einu sinni búið að fá opinbera staðfestingu á því hve umfangsmiklar og víðtækar þessar njósnir eru. Ótti þeirra sem ber að vernda almenning gagnvart árásum á friðhelgi einkalífs snýr ekki að Kína, Íran eða hryðjuverkasamtökum, nei hann snýst um að svo virðist sem að um algert stjórnleysi sé að ræða hjá bandarískum yfirvöldum þegar kemur að brotum á friðhelgi einkalífs almennings um heim allan.

Ljóst er að þetta er ekki einkamál bandarískra né breskra yfirvalda, þetta varðar öll heimsins lönd og það fólk sem treystir því að yfirvöld verndi grundvallarmannréttindi sín.

En skiptir þetta okkur einhverju máli? Ég hef ekki gert neitt af mér og ég hef ekki neitt að fela, segja margir. Það sem gleymist í þessu samhengi er að til dæmis blaðamenn geta ekki tryggt öryggi heimildarmanna sinna, lögfræðingar geta ekki gætt friðhelgi skjólstæðinga sinna, læknar geta ekki gætt friðhelgi sjúklinga sinna, þingmenn geta ekki gætt öryggis kjósenda sinna, ráðherrar geta ekki gætt öryggis landsins. Vert er að benda á þá staðreynd að þeir sem vilja hylja slóð sína kunna að nýta sér dulkóðun, en aðrir eru grandvaralausir gagnvart þörf á slíku og öll þeirra einkamál eru á torgum úti án þeirrar vitneskju.

Í bréfi sem Viviane Reding, dómsmálastjóri ESB, sendi Eric Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, krafðist hún upplýsinga um njósnir Bandaríkjamanna sem beindust að ráðamönnum og almennum borgurum í Evrópu. Reding getur þess í bréfinu til Holders að svar hans gæti haft áhrif á samskipti Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Hefur hæstv. innanríkisráðherra ritað sambærilegt bréf og ef svarið er nei, af hverju ekki?