143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framhaldsskóladeildir.

108. mál
[16:42]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera sammála þeirri skoðun að hér eigi að hafa framboð á námi sem næst heimabyggð og reyna þá að tryggja að fólk geti að minnsta kosti verið í námi til 18 ára aldurs í sinni heimabyggð. Það er líka mikilvægt að við náum að auka menntunarstig í landinu. Það hefur sýnt sig að þar sem dreifnámið hefur komið og raunar heilu skólarnir hefur samsetning á námi gjörbreyst.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í dreifnámið. Mér sýnist það í fljótu bragði hafa gerst að ráðherra hafi tekið út sóknaráætlunina, hann segir ný verkefni en hann tók út sóknaráætlunina sem var fjögurra ára verkefni sem hafði verið unnið með sveitarfélögunum í landinu. Þau hafa lagt gríðarlega áherslu á að forgangsraða og forgangsröðuðu víða dreifnáminu. Þannig getur maður auðvitað ekki unnið eða afsakað sig, það er ekki hægt að stroka út Blönduós, Hvammstanga og Hólmavík bara af því að það er einhver sóknaráætlun (Forseti hringir.) fyrri ríkisstjórnar í húfi.

Ég skora á hæstv. ráðherra að leiðrétta þetta og mér heyrist þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum (Forseti hringir.) telja þetta vera forgangsverkefni.