144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umboðsmaður skuldara.

159. mál
[15:21]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það er gríðarlega mikilvægt að umboðsmaður skuldara geti sinnt hlutverki sínu, hinu lögbundna hlutverki að gæta hagsmuna skuldara. Það er líka gríðarlega mikilvægt að við gerum þjóðinni grein fyrir því að umboðsmaður skuldara er embætti sem er komið til að vera og í rauninni söknuðum við þessa verkfæris fyrir hrun. Það var búið að gera tilraunir um áraraðir til að taka upp umboðsmann skuldara sem hefði það hlutverk sérstaklega að gæta hagsmuna skuldara og verja þá fyrir ýmsum ákvörðunum sem teknar eru í fjármálalífinu og varðandi skuldsetningu og annað þess háttar. Þess vegna vona ég að öllum sé ljóst að þetta embætti er ekki til skamms tíma. Ég fagna því að hér séu settar skýrar heimildir sem gera embættinu kleift að fylgja málum betur eftir.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um eru önnur mál sem voru til umræðu á sínum tíma þar sem menn kvörtuðu yfir því að samningar á lokastigi strönduðu oft á því að menn báðu um fresti, framlengingar og frekari upplýsingar. Hefur þetta breyst, gengur þetta á skilvirkari hátt en áður? Það var líka kvartað yfir því að opinberar stofnanir væru ekki mjög liprar í sambandi við samningagerð. Við vitum að þær eru undanþegnar í sumum tilfellum ef um er að ræða ákveðnar tegundir skulda. Hvernig er staðan á því máli, er búið að liðka fyrir því og koma því í ákveðið form?

Eins virtist hafa verið brestur á því að mönnum væri gerð grein fyrir því að skuldir með ábyrgðum kæmu til greiðslu á ábyrgðarmennina þannig að samningar, oft á síðustu stigum, féllu á því að viðkomandi skuldari vildi ekki láta ábyrgðirnar falla á fólk og féll frá samkomulaginu. Það var sagt: Nú eigið þið að borga þetta, fínt, þið ráðið við þetta, en fyrst verðið þið að gera upp skuldina (Forseti hringir.) sem er ábyrgð á. Og þá náttúrlega féll samningurinn.

Það eru ýmis framkvæmdaratriði og mig langar að heyra áhyggjur hæstv. ráðherra eða um stöðu mála í núinu.