145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit eiginlega ekki alveg hvar maður á að byrja í andsvari við þessa ræðu. Ætli það sé ekki ágætt að byrja á því að það er ósatt hjá hv. þingmanni að sagt hafi verið að það kæmu 1.200 milljarðar í ríkissjóð. Það er ósatt. Það sem rætt var um í tengslum við heildarumfang aðgerðanna voru áhrif aðgerðanna, hvað við værum að fást við. Það var verið að draga það fram hversu stórt viðfangsefnið er, hversu háar kröfurnar eru í búin í íslenskum krónum, hversu mikið umfangið er sem við þurfum að fást við til þess að hlutleysa slitabúin gagnvart greiðslujöfnuðinum. Það er gert með ýmsum hætti, það er gert með stöðugleikaframlaginu, þ.e. ef menn fara þá leið með stöðugleikaframlaginu, með beinum framlögum, með lengingu og öðrum aðgerðum. Skatturinn er leið til þess að svara sömu álitamálum með skýrum hætti og það gerist í lok þessa árs, skattlagningin fellur á slitabúin og það liggur alveg fyrir hverjar eignirnar eru og hver skattprósentan er, þannig að það er allt rétt sem sagt hefur verið um þær heildarfjárhæðir sem þar gætu verið undir. Að öðru leyti er það rangt, það er rangt að því hafi verið lofað að þetta mundi allt saman skila sér í ríkissjóð.

Þegar sagt er að forusta ríkisstjórnarinnar, sá sem hér stendur, forsætisráðherra eða aðrir ráðherrar, hafi gert að umtalsefni hvað gæti skilað sér í ríkissjóð vegna þessara aðgerða er það þannig að þegar spurt er þá svara menn. Það er sjálfsagt og eðlilegt þegar um skatt er að ræða að menn svari því hvers sé að vænta að hann skili og þá á í raun og veru nákvæmlega hið sama við um stöðugleikaframlagið.

Ekkert af þessu breytir því að það er útgangspunktur í aðgerðum okkar að verkefnið sé að koma efnahagskerfi okkar í skjól og á sama tíma (Forseti hringir.) gera slitabúunum það kleift að gerast kröfuhafar.