148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

um fundarstjórn.

[14:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér fyrr í dag undir andsvörum hæstv. dómsmálaráðherra hvort ég ætti að fara upp í fundarstjórn forseta. Ég kem hér upp því að mér fannst ráðherrann tala óþarflega mikið niður til verkefna stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég ætla ekki að hafa skoðun á því hvort verið sé að snúa út úr fyrir Pírötum eða eitthvað slíkt, en ég hef hins vegar áhyggjur af því að sá andi og sá talsmáti sem ráðherrann hafði uppi í andsvörum sínum fyrr í dag er til þess fallinn að grafa undan þeim mikilvægu verkefnum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur.

Hérna sitja tveir ráðherra á svokölluðum ráðherrabekk sem ég ætla að kalla sakamannabekk, því að báðar hafa þær verið dæmdar af Hæstarétti og báðar hafa þær kosið að gera ekkert í málinu. Maður veltir því fyrir sér og spyr sig: Hvenær þarf ráðherra að axla ábyrgð ef ráðherra er dæmdur af dómstólum landsins? Þær hafa aldrei axlað ábyrgð. Skiptir brotið máli? Skiptir úrskurður máli? Hins vegar er allt í lagi að flæma stjórnmálamenn frá störfum sínum sem saklausir eru. Hversu oft hefur maður heyrt (Forseti hringir.) bullið og þvæluna koma upp úr þingmönnum Vinstri grænna þegar einhverjir aðrir eiga í hlut (Forseti hringir.) en þeir sjálfir, ráðherrar sem eru jafnvel dæmdir?