151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

tekjufallsstyrkir.

212. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Bara örstutt leiðrétting: Verði breytingartillaga nefndarinnar samþykkt erum við að tala um 40% en ekki 50%. Stutta svarið er: Já. Auðvitað hlýtur það að koma til greina að menn skoði stöðu sem kemur upp eftir því sem dæmum fjölgar um að til séu aðilar, einhver fyrirtæki, sem ættu hugsanlega að njóta stuðnings úr sameiginlegum sjóðum okkar. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þau frumvörp sem við erum að tala um hér í dag, annars vegar lokunarstyrkirnir og sérstaklega tekjufallsstyrkirnir, munu ekki ná utan um alla. Það munu einhverjir falla fyrir utan. Það er ekki voðalega mikill munur á því að eiga fyrirtæki sem verður fyrir 37% tekjufalli eða eiga fyrirtæki sem verður fyrir 40% tekjufalli. En sá sem er með 37% tekjufall uppfyllir ekki það ákvæði að fá tekjufallsstyrk. Það er sárt. En einhvers staðar verður að draga línurnar. Þess vegna teygðum við okkur niður og þess vegna búum við til þessi þrep sem við erum að ræða um. Hefðum við viljað ganga lengra? Já, en það eru einhver mörk sem við verðum að setja í þessum efnum jafn sárt og það kann að vera og jafn óréttlátt og mörgum kann að þykja það. Það skiptir gríðarlega miklu máli að við sem þingmenn áttum okkur á þeirri stöðu sem atvinnulífið er í, að við áttum okkur á þeim dæmum sem við erum ekki að ná utan um og okkur þykir ástæða til að skoða. (Forseti hringir.) Það er ekki síst skylda mín, sem ber ábyrgð á því sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar, að grípa til þeirra ráðstafana sem skynsamlegar kunna að þykja.