154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

staða og úrvinnsla mála hjá stjórnvöldum.

[15:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hafi fyrirspurn mín verið einhvers konar stjórnmálaskýring þá var svar hæstv. ráðherra hvorki svar né skýring því að hæstv. ráðherrann svaraði í raun engu. Og jú, ég myndi alveg sætta mig við það að ríkisstjórnin félli, ég skal viðurkenna það, en það sem er mikilvægara er að ríkisstjórnin fari að taka sér tak, fari að leysa sín ágreiningsmál og vinna að hag þjóðarinnar. Hér gat hæstv. forsætisráðherra ekki gefið eitt svar, ekki eitt dæmi um ágreiningsmál þessarar ríkisstjórnar sem hefði verið leyst. Jú, menn ætla áfram að vinna í því að leysa úr málum, það á áfram að hafa áhyggjur af verðbólgunni og útlendingamálin eru óleyst mál og við höfum áhyggjur af því að það sé óleyst. En ekki eitt svar, eftir allt sem á undan er gengið, um eitt mál sem þessi ríkisstjórn hefur leyst sín á milli og getur kynnt okkur einhverja stefnu til að ræða hér í þinginu og annars staðar og helst auðvitað (Forseti hringir.) vera landsmönnum til hagsbóta. — Ekki eitt mál sem ríkisstjórnin náði saman um undanfarna daga.