154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

staða og úrvinnsla mála hjá stjórnvöldum.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni heiðarleg svör þegar hann sagðist nú helst hafa vonast eftir einhverri annarri niðurstöðu. Ég kann að meta það. Ég held hins vegar að ég verði aftur að hryggja hv. þingmann með því að það liggur algerlega fyrir að það að ná niður verðbólgu og skapa hér forsendur til að unnt sé að lækka vexti er auðvitað langstærsta hagsmunamál íslensks samfélags. Það liggur algerlega fyrir líka að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur þegar kynnt á vettvangi ríkisfjármála sem lúta bæði að aukinni tekjuöflun og aðhaldi í rekstri eru þegar farnar að hafa áhrif, eru þegar farnar að skila sér. Ég held að ákvörðun Seðlabankans um að hækka ekki vexti við síðustu vaxtaákvörðun hafi verið mikilvæg. Ég held að það sýni, og ég vona svo innilega að það reynist rétt hjá mér, að við séum komin upp í þakið, að við förum ekki hærra. Undirliggjandi þættir verðbólgunnar eru á niðurleið en það eru enn mörg stór verkefni fram undan og m.a. eru það kjarasamningar sem skiptir öllu máli að verði farsælir langtímasamningar. Þannig að þegar hv. þingmaður ræðir hér um að ríkisstjórnin sé ekki að sinna hagsmunum þjóðarinnar þá er það þetta sem eru stóru málin fyrir hagsmuni samfélagsins. Þetta eru þau mál og að þeim er unnið og áfram er unnið.