132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Fjölgun og staða öryrkja.

[14:19]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hverjir missa fyrstir vinnuna þegar þrengir að á vinnumarkaði? Það eru þeir sem hafa skerta starfsorku, t.d. fatlaðir. Hver er staða þess sem missir starfsorku vegna heilsubrests og getur ekki unnið? Hann fær ekki atvinnuleysisbætur eftir að launum í vinnu sleppir. Velferðarkerfi okkar ýtir óvinnufærum til örorkubóta og torveldar þeim að komast út á vinnumarkaðinn að nýju. Það er gert með skerðingum og jaðarsköttum. Þetta er auðvitað engin skynsemi.

Sá sem missir starfsorku í löndunum í kringum okkur fer á sjúkradagpeninga sem eru hærri en örorkubætur. Eftir ár er síðan metið hvort þeir fái örorkumat. Hér eru sjúkradagpeningar svo lágir að vonlaust er að draga fram lífið á þeim. Það eru 876 kr. á dag eða um 27 þús. kr. á mánuði (PHB: En sjúkrasjóðir?) enda fer þeim ört fækkandi sem fá þær greiðslur samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Menn fara beint á örorku. Lágar eru örorkubæturnar en af sjúkradagpeningum almannatrygginga lifir enginn (PHB: En sjúkrasjóðirnir?) nema eiga því meiri rétt í sjúkrasjóðum verkalýðsfélaganna. (PHB: Sem allir eiga.) Þess vegna fara margir beint á örorkugreiðslur.

Öryrkjar komast ekki út úr tekjutengingu kerfisins. Tekjutengingin letur fólk til að fara í starfsendurhæfingu og út á vinnumarkaðinn því þá skerðast greiðslur frá Tryggingastofnun og rétturinn hjá lífeyrissjóðunum skerðist. Margir veigra sér við að fara í endurhæfingu og úr verður vítahringur. Á þessu vill Samfylkingin taka heildstætt og í samráði við lífeyrisþega sjálfa. Öryrkjar sem verða 67 ára fá lægri greiðslur við að verða ellilífeyrisþegar og ná ekki endum saman. Á þessum málaflokki verður að taka heildstætt og í samráði við lífeyrisþega sjálfa.

Endurskoðun á læknisfræðilegu örorkumati. Ég spyr hæstv. ráðherra hvað hann meinar með því.