132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

45. mál
[16:54]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem orðið hefur um þetta frumvarp. Hún hefur verið góð og bætt við þá umræðu sem þegar hefur farið fram um þessi mál í þingsölum.

Ég vil geta þess í framhaldi af þeim orðaskiptum sem orðið hafa núna á milli þeirra hv. þingmanna Ögmundar Jónassonar og Jóhönnu Sigurðardóttur úr Reykv. s. að ein grein þess frumvarps sem við ræðum hér, þ.e. 4. gr., gerir ráð fyrir að sérhvert fyrirtæki eða stofnun þar sem starfa fleiri en 25 manns kjósi sér jafnréttisfulltrúa, en ég gerði ekki sérstaka grein fyrir henni í framsöguræðu minni. Þeim jafnréttisfulltrúa verði falið að hafa eftirlit með jafnréttisáætlun viðkomandi fyrirtækis og tryggja að jafnrétti sé fylgt í starfsmannastefnu og að öllu leyti hvað varðar viðkomandi fyrirtæki. Í þessari frumvarpsgrein er reiknað með því að jafnréttisfulltrúarnir starfi í nánu samstarfi við trúnaðarmenn viðkomandi fyrirtækis og að í störfum sínum geti þeir tekið saman upplýsingar og fjallað bæði um almenn og sértæk jafnréttismál í samræmi við réttindi og skyldur III. kafla jafnréttislaganna. Hugmyndafræðin á bak við þessa grein er einmitt sú að tilgangi jafnréttislaganna verði best náð ef innra eftirlit fyrirtækja og stofnana er í lagi.

Ég tel að það mál sem við ræddum hér eða hv. þingmenn áttu orðaskipti um, viðbótargreiðslurnar, sé einmitt dæmigert mál sem jafnréttisfulltrúar fyrirtækja ættu að sinna og ættu að hafa aðgang að upplýsingum til þess að tryggja að fólki sé ekki mismunað á grundvelli kynja hvað varðar þessar viðbótargreiðslur. En eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir bendir á er það staðfest í skýrslum og athugunum sem gerðar hafa verið að slík mismunun hefur viðgengist.

Ég vil síðan þakka upplýsingar frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur varðandi þau ákvæði í framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna sem fóru inn í jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar, hún upplýsir hér í umræðunni á hvern hátt það ákvæði fór inn í jafnréttisáætlunina. Ég tek líka eftir því að hv. þingmaður hefur innt hæstv. félagsmálaráðherra eftir því á nýju þingskjali hvað líði þessari framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna. Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig hæstv. félagsmálaráðherra svarar spurningum þingmannsins.

Varðandi þau orð hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að það frumvarp sem hér um ræðir taki ekki á launaleyndinni þá er það auðvitað alveg rétt, það gerir það ekki. Engu að síður er talsverður kafli í greinargerðinni sem fjallar um launaleyndina og áhyggjur flutningsmanna af henni. Ég verð að segja það að við deilum þarna sjónarmiðum, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þingmenn Samfylkingarinnar, þar sem við teljum að það sé afar mikilvægt að skoða það ofan í kjölinn á hvern hátt þær kjaraákvarðanir sem núna eru í auknum mæli ákveðnar eða vélað um í einstaklingsbundnum samningum, hafa mismunandi áhrif á kynin. Það er ýmislegt sem bendir til þess að karlar beri meira úr býtum í slíkum einstaklingsbundnum samningum en konur. Ég get alveg sagt það hér fyrir hönd þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að við höfum mjög miklar áhyggjur af þessu og fullan hug á að takast á við þetta vandamál líka. Verði lagt fram þingmál frá Samfylkingunni varðandi það mál lýsi ég því yfir að ég væri sannarlega reiðubúin til að styðja það eða flytja málið með hv. þingmönnum Samfylkingarinnar ef það stæði til boða.

Þetta er stórt og viðamikið mál. Það er rétt sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði að við þurfum ekki einungis að fjalla um þau lögbrot sem framin eru í þessu tilliti, þ.e. hvernig brotið er á fólki sem samkvæmt lögum á ákveðinn rétt, heldur þurfum við líka að hafa í huga að skoða þann launamun sem er innbyggður í okkar kyngreinda vinnumarkað. Hinn kyngreindi vinnumarkaður er auðvitað eitt af þeim viðfangsefnum sem alþingismenn ættu að taka hér alvarlega til skoðunar.

Eitt af því sem ég greindi ekki frá í flutningsræðu minni áðan, hæstv. forseti, var að þetta mál var sent út til umsagnar á síðasta löggjafarþingi. Það voru reyndar afar fáir sem fengu málið til umsagnar og enn færri sem skiluðu inn umsögnum. Þeir sem skiluðu umsögnum voru félagsmálaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins og Verslunarráð Íslands, sem nú heitir Viðskiptaráð Íslands. Ég veit ekki hvort það kemur nokkrum á óvart hér en bæði Verslunarráðið og Samtök atvinnulífsins leggjast harkalega gegn frumvarpinu og þeim hugmyndum sem að baki því liggja og félagsmálaráðuneytið telur með öllu ótímabært að mæla með umræddum breytingum og rökstyður það í bréfi sem sent var til félagsmálanefndar. Ég er ósammála félagsmálaráðuneytinu í þeim efnum. Ég tel okkur hafa í þeirri umræðu sem hér hefur orðið sýnt fram á það svo ekki verði um villst að fullt tilefni er til að leiða í lög þau ákvæði sem hér hafa verið til umræðu og frumvarp þetta hefur að geyma.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til áframhaldandi umfjöllunar í félagsmálanefnd og 2. umr.