137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[13:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka kröfur þeirra þingmanna sem hafa staðið í ræðustóli á undan mér. Ég vil vitna í nokkur orð sem komu fram í orðum hv. þingmanna Vinstri grænna í umræðunni einmitt um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu. Þar töluðu þeir um fyrrverandi ríkisstjórn, að hún hefði látið kúgast, að hún hefði kysst á vöndinn, og þeir ætluðu svo sannarlega ekki að gera það sama.

En hvað sjáum við hér? Ríkið ætlar að styrkja Breta um þennan pening án þess að bera neina lagalega ábyrgð. Þetta kemur meira að segja fram í ræðum hv. þingmanna Vinstri grænna. Samningaviðræðurnar núna virðast hafa gengið út á það að ekki var verið að semja um hvort við ættum að borga eða hversu mikið heldur einfaldlega hvernig við ættum að borga. Ég verð bara að segja án þess að vera nokkur hlátur í huga að mér þykir þetta jaðra við landráð.