137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[14:33]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta er með stærri og vandasamari málum sem íslenska þjóðin hefur lengi staðið frammi fyrir. Mér finnst umræðan kannski ekki alveg vera í samræmi við það sem hér hefur farið fram í liðnum Um fundarstjórn forseta. (Gripið fram í.)

Þegar ég sagði í gær, á miðvikudaginn var eða fyrir þrem dögum, eða hvað það var, að ekki stæði til að undirrita eitthvað daginn eftir eða á næstu dögum var það mat á stöðu þessara þreifinga að ólíklegt væri að neitt slíkt væri í sjónmáli.

Síðdegis í gær varð sú framþróun í þessum viðræðum að þá fór að líta út fyrir að mögulega gæti náðst lending. (Gripið fram í.) Hvað var þá gert? Það var óskað eftir hléi til þess að hægt væri að kynna ríkisstjórn, formönnum stjórnarandstöðuflokkanna, þeim sem mættu, utanríkismálanefnd og öllum þingflokkum á Alþingi stöðuna í viðræðunum. (Gripið fram í.) Það var gert í morgun. Það er óhefðbundið … (Gripið fram í.) Ég sé ekki ástæðu, frú forseti, ef ég get ekki einu sinni notað þessa mínútu (Forseti hringir.) sem ég fæ til að reyna að koma hér upplýsingum á framfæri að vera að reyna að leggja það á mig. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÞBack): Forseti biður um hljóð í salnum og að þingmenn gefi ræðumönnum hljóð.)