137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

meðferð ríkisbanka á fyrirtækjum í greiðsluerfiðleikum.

[14:55]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur einhvern veginn ekkert verið minnst á það eignaumsýslufélag sem ég hélt að væri óhjákvæmilegt að ræða í þessu sambandi vegna þess að við höfum núna … (Gripið fram í.) Takk fyrir. Það hlutverk sem efnahags- og skattanefnd hefur talað sig inn á að verði fyrir það félag er raunverulega það sem hæstv. fjármálaráðherra lýsti áðan, þ.e. að tryggja að gagnsæi ríki í ferlinu við endurskipulagningu skulda fyrirtækja, að það ríki jafnræði, að reyna að afnema tilviljanakennd afskipti og tilviljanakenndar ákvarðanir og samræma það hvernig tekið er á þessum fyrirtækjum með samkeppnissjónarmið í huga. Síðan kemur fjármálaráðherra og lýsir því hvað bankarnir eru að gera og þá er ég ekki alveg viss um að ég skilji lengur hvaða gagn er að þessu eignaumsýslufélagi.

Og síðan kemur viðskiptaráðherra og talar um hlut sem maður einmitt óttaðist svo mikið í þessu sambandi, að pólitísk hentistefna mundi ráða því hvernig menn nálgast fyrirtækin, þ.e. að pólitíkusar geti flokkað upp félögin og sagt: Þessu hjálpum við, þessu hjálpum við ekki. Ég er því eiginlega pínulítið týndur í þessari umræðu, um hvað við erum eiginlega að tala hér. Ég hélt að við ættum að tala um það hvernig við ætlum að standa að því endurskipuleggja eða meðhöndla skuldir rekstrarfélaga (Forseti hringir.) í bönkunum.