137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hvar er hæstv. ríkisstjórn stödd? Hér er einn hæstv. ráðherra í salnum, utanþingsráðherra, hæstv. viðskiptaráðherra. Hvar er öll ríkisstjórnin og hvar eru þingmenn stjórnarflokkanna, meirihlutaflokkanna á þessu þingi, vinstri flokkanna sem eru að leiða hér í gegn einhverja mestu niðurlægingu þessa þings sem það hefur orðið fyrir örugglega í sögunni? Ég hvet virðulegan forseta til þess að gera ráðstafanir til þess að þetta fólk mæti hér til fundar til þess að taka þátt í þeirri mikilvægu umræðu sem hér fer fram.

Það flýgur fyrir að til standi að undirrita þessa samninga í dag. Það hefur komið hér fram í umræðunni bara á síðustu dögum að hæstv. fjármálaráðherra virðist ekki hafa vitað af þeirri umræðu sem var í gangi. Hann virðist ekki hafa vitað af þeim samningaviðræðum sem voru í gangi, hvað þá hvað þær innihéldu. Hann kemur hér í dag og það þarf að klára þennan pakka í miklum hvelli. Af hverju er það? Hvað býr að baki því að þessi mikli hraði þurfi (Forseti hringir.) allt í einu að vera á þessu máli, að ekki sé hægt að gefa hér eðlilegan tíma til þess (Forseti hringir.) að ræða þetta mál? Hvað býr að baki? Er það svo að Evrópusambandsumsóknin sé svo mikilvæg — og hún er í farvatninu — að það sé verið að þóknast (Forseti hringir.) þeim þjóðum sem um hana munu fjalla?

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Margar sérstakar hugsanir fara um hugann (Forseti hringir.) við þessar aðstæður og ég skora (Forseti hringir.) á virðulegan forseta (Forseti hringir.) að taka nú til hendinni (Forseti hringir.) og hlusta á kröfur þingmanna.