137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:24]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég óskaði í fyrri ræðu minni eftir viðveru fjármálaráðherra og forsætisráðherra og virðulegur forseti hefur upplýst að forsætisráðherra sé vant við látin. Hins vegar hefur því ekki verið svarað hvar hæstv. fjármálaráðherra sé og hvers vegna hann getur ekki komið hér til umræðu við okkur. Ég ætti kannski að fletta því upp á mbl.is hvað er að gerast í Icesave-deilunni vegna þess að við hér í þinginu fáum virkilega ekki neinar upplýsingar um það aðrar en þessa sýndarkynningu sem við fengum á þingflokksfundum í morgun — ég leyfi mér að segja það — sýndarkynningu. Það hafa engin gögn verið lögð fram. Við höfum ekki fengið að sjá neinar tölur og engu að síður er verið að semja hérna um hagsmuni komandi kynslóða á Íslandi. Þetta er til skammar fyrir þingheim og ég trúi því varla að þetta séu vinnubrögðin á hinu nýja Íslandi. Kannski að þeir stjórnarliðar sem þó þora að vera hér og taka þátt í þessum umræðum geti upplýst mig um það hvort þau séu stolt af þessum lýðræðislegu vinnubrögðum og hvort þau sé stolt af því að þetta (Forseti hringir.) séu hin nýju vinnubrögð sem ríkisstjórnin boðaði.