139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kannast ekki við að hafa verið í neinum talnaleik, ég held að ég hafi bara farið með staðreyndir og tölur sem hv. þingmaður getur farið yfir allar saman. Ef hann rekst á að ég hafi einhvers staðar farið ónákvæmt með þá bið ég hann endilega að láta mig vita því það var ekki ætlunin annað en gera hlutlæga og rétta grein fyrir þessu. Ég hefði kannski átt von á því að legið hefði heldur betur á þingmönnum þegar þeir fengju þó þetta góðar fréttir um að hallinn yrði 28,4 milljörðum minni miðað við fjáraukalög en fjárlögin gerðu ráð fyrir. Það er ekki á hverjum degi sem við getum þó huggað okkur við að eitthvað gangi heldur betur hjá okkur en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Það er fleira sem leiðir til þessarar útkomu en þeir tveir stóru liðir sem hv. þingmaður nefndi réttilega og vega þungt, þ.e. lægri vaxtagjöld og sala eigna. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að almennt gengur mjög vel að halda rekstri ríkisins innan fjárheimilda og útgjöld á allmörgum sviðum eru lægri en ætlað var og mestan part af jákvæðum ástæðum, ef svo má að orði komast. Það er ástæða til að gleðjast yfir því.

Varðandi meðferð söluhagnaðarins í viðskiptunum sem kennd eru við Avens þá er ég enginn sérstakur sérfræðingur í því hvað skuli teljast nákvæmlega réttar bókfærslureglur við þær aðstæður. Farið var yfir þetta með viðkomandi sérfræðingum og niðurstaðan varð sú að eðlilegt væri að bókfæra söluhagnað með þessum hætti. Það var tekið inn í uppgjör júnímánaðar eins og hv. fjárlaganefndarmönnum og þingmönnum er væntanlega kunnugt. Ég held að stuðst sé við þær reglur að bókfæra eigi slíka hluti strax, hvort sem er til tekna eða gjalda, og það sé hin rétta aðferð í þeim efnum.

Varðandi kaup á sendiherrabústað sem mjög eru rædd og angrar marga þá verður að skoða báðar hliðar málsins. Kaupin koma í framhaldi af því að seld var miklu dýrari eign og innleystur umtalsverður söluhagnaður. Það eru m.a. viðbrögð við ástandinu að ná niður kostnaði í rekstri utanríkisþjónustunnar með því að selja mjög dýrar eignir og kaupa minni og ódýrari í staðinn. En auðvitað er það kostnaður þegar þær eru keyptar fyrir hluta af söluhagnaðinum sem myndaðist.