139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:47]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir málefnalegar og góðar ræður og ágætar ábendingar sem þeir komu með, margar hverjar.

Varðandi það sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi um forsendurnar þá höfum við svo sem rætt dálítið um það áður, ekki síst við 1. umr. fjárlagafrumvarpsins. Ég skil að sjálfsögðu vel að hv. þingmenn hafi áhyggjur, þær hef ég sjálfur. Maður rýnir í þessar tölur og reynir að átta sig á því hvað liggi á bak við, t.d. þessar lágu tölur um fjárfestingu. Reyndar er það nú svo að þegar spáð er í ýmsar vísbendingar eru þær stundum svolítið misvísandi. Ég á enn eftir að sjá að bæði samdráttur í landsframleiðslu og að þessi lága fjárfestingartala reynist rétt þegar upp er staðið. Ég nefndi þar einfaldlega sem rök að þegar maður skoðar ýmsar vinnumarkaðstengdar upplýsingar og atvinnuástandið ætti staðan í raun og veru að vera verri ef fjárfestingar hefðu dregist jafnharkalega saman og þessar spár gerðu ráð fyrir. Ef skoðaðar eru tölur um innflutning á hrávörum og fjárfestingarvörum hefur verið umtalsverður innflutningur og nokkur aukning á þeim liðum allmarga undangengna mánuði sem ættu þá a.m.k. að vísa til einhverra aukinna umsvifa í framhaldinu en ekki benda til jafnmikils hægagangs á þessu sviði og ætla mætti af spám.

Það verður fróðlegt að sjá uppgjör þriðja ársfjórðungs er það kemur, sérstaklega held ég þó að fróðlegt verði að sjá vinnumarkaðsupplýsingar sem eru væntanlegar á næstu dögum. Þær eru kannski ekkert síður góður mælikvarði en veikburða tilburðir til að meta heildarumsvif í hagkerfinu og þróun landsframleiðslu í punkti eins og sagan sýnir okkur að er mjög erfitt. Jafnvel þó að við fengjum góðar fréttir, við erum alltaf að bíða og vona, um að viðsnúningur væri nú að verða sem við höfðum ástæðu til að ætla að væri byrjað að glitta í miðað við mat Hagstofunnar á þjóðarframleiðslu, bæði á fjórða ársfjórðungi 2009 og fyrsta ársfjórðungi 2010, sem síðan var leiðrétt niður á við, vitum við að við yrðum að taka þeim með fyrirvara. Ég held því að reynslan sýni okkur að við verðum að taka bæði góðum fréttum og slæmum með ákveðnum fyrirvörum vegna þess að matið er svo erfitt í samtímanum.

Þegar maður fer yfir hvernig Hagstofan eða spáaðilar hafa smátt og smátt leiðrétt, jafnvel nokkur ár aftur í tímann, útreikninga sína á því hvernig þjóðarframleiðsla þróaðist nákvæmlega á einstökum ársfjórðungum eða að meðaltali yfir ár í heild er það mjög fróðleg lesning. Einna hrottalegast var útslagið á árunum 2006 og 2007 eins og kom fram í þeim tölum sem ég fór yfir áðan þegar bornar voru saman tillögur fjáraukalaga við fjárlög yfirstandandi ára 2006 og 2007, t.d. hvað varðar tekjur, svo maður tali nú ekki um niðurstöður ríkisreiknings síðar. Ef ég man rétt þá var það þannig á árinu 2006 að lengi framan af var nánast engum vexti spáð í landsframleiðslu. Þá spá hefur forveri minn væntanlega haft í höndunum þegar hann saumaði saman fjárlög fyrir árið 2007. Síðan þegar upp var staðið varð niðurstaðan 6% í plús, frá spá um 0,5%–1%. Mönnum er því nokkur vandi á höndum þegar hlaupið er svona mikið á þessu. Að lokum er það baksýnisspegillinn sem segir okkur smátt og smátt nákvæmlega hvernig hlutirnir þróuðust í tíma þegar öll kurl eru komin til grafar.

Í öðru lagi um það sem hv. þingmaður nefndi, um lögfræðikostnað og ýmsan kostnað sem tengist úrvinnslu á hruninu, málefnum fjármálastofnana og öðru slíku, er alveg rétt að þetta eru háar tölur sem við Íslendingar erum nú kannski ekki mjög vön, en maður hefur lært hratt á umliðnum missirum að erlendir lögfræðingar og erlend ráðgjafarfyrirtæki eru ekki ókeypis. Það er í tísku að vantreysta sjálfum okkur og eigin fagmönnum og segja: Við skulum fá einhverja útlendinga til að gera þetta fyrir okkur. Það getur oft verið gott að styðjast við slíka sérfræðiþjónustu, en hún er ekki ókeypis. Það er mikilvægt að menn hafi það í huga. Meira að segja Alþingi þarf að muna eftir því, ef ég man rétt er hér „lítill“ reikningur sem (Gripið fram í.) Alþingi ákvað upp á sitt eindæmi að leggja út fyrir í desembermánuði síðastliðnum.

Rétt er að það komi fram að kostnaðurinn vegna sparisjóðanna, þessar 230 millj. kr., er í reynd ýmiss konar lögfræðiráðgjöf og sérfræðiþjónusta sem tengist meiru en bara sparisjóðunum, þ.e. minni fjármálastofnunum. Ég held að rétt hafi verið að því staðið að fá þá reyndu sérfræðinga sem voru orðnir þaulkunnugir aðstæðum hér á landi og höfðu aðstoðað við samningagerðina milli gömlu og nýju bankanna, þ.e. fyrirtækið Hawkpoint sem hefur verið aðalráðgjafi okkar í þessu máli áfram. Nú er þessi kostnaður færður á ríkið vegna þess að sú leið er ekki í boði sem þá var, að í raun og veru tóku fjármálastofnanirnar sjálfar á sig obbann af þeim kostnaði og hann kom þar af leiðandi ekki inn í bókhald ríkisins því að þá hefðu menn séð háar tölur, skal ég segja ykkur. Menn hefðu séð háar tölur ef við hefðum orðið að taka inn á fjárlögin allan kostnaðinn sem var af samningagerðinni milli gömlu og nýju bankanna.

Um 350 milljónirnar í markaðsátak, sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi sömuleiðis, varð niðurstaðan sú að taka þær af óráðstafaða liðnum vegna þess að það var algerlega tilfallandi óvæntur kostnaður sem menn ákváðu að ráðast í. Þetta var framlag á móti sömu fjárhæð frá greininni sjálfri. Ég tel að vel hafi tekist til.

Þrátt fyrir að það sé rétt sem hv. þingmaður Kristján Þór Júlíusson segir, að ákveðnir liðir tengist ákvörðunum sem ríkisstjórnin hafi tekið, vil ég meina að þeir séu satt að segja afar fáir. Stór hluti af þessu er vegna ákvarðana sem Alþingi hefur tekið, eins og að halda þjóðfund, stjórnlagaþing og hvað það nú er. Við mætum því þá með tillögum um útgjöld í staðinn. Satt best að segja hefur að langmestu leyti tekist að mæta öllum ófyrirséðum útgjöldum, annars vegar með því að bókfæra þau gjöld á óráðstafaða liðinn og rækilegar töflur sýna þá sundurliðun á bls. 59, ef ég man rétt, og hins vegar hefur það takmarkaða fé sem er á ráðstöfunarlið ríkisstjórnar dugað til að mæta slíku. Um mjög óverulegar fjárhæðir er að ræða. Ég leyfi mér að fullyrða að þetta er með því allra minnsta sem tekið hefur verið í fjáraukalög frá löngu árabili af slíku tagi, enda hefur verið staðið mjög fast á bremsum gagnvart öllum nýjum útgjöldum og almennt ekki neinu slíku verið hleypt í gegn. Ekki hefur verið orðið við fjölmörgum óskum sem auðvitað koma um auknar útgjaldaheimildir vegna margra brýnna og þarfra málefna. Almennt var góð samstaða í ríkisstjórn um að standa fast á bremsunum í þeim efnum og ég og forsætisráðherra höfum sameinast um að reka mjög aðhaldssama stefnu.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að blanda mér í það sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi í samskiptum fyrrverandi heilbrigðisráðherra og Ríkisendurskoðunar. Um það talar bara hver fyrir sig. Ég verð reyndar að segja úr því að það ber á góma að ég er undrandi á því að Ríkisendurskoðun skuli ekki hafa farið í þá úttekt á Sjúkratryggingum sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra eða heilbrigðisráðuneytið óskaði eftir snemma á þessu ári í samráði við fjármálaráðuneytið. Það verður að horfast í augu við að langalvarlegasti framúrkeyrsluliðurinn á fjárlögum eru sjúkratryggingarnar. Við vitum að á því eru ákveðnar skýringar. Menn geta sagt að það hafi að einhverju leyti verið fyrirsjáanlegt, en það er jafnalvarlegt í sjálfu sér fyrir því. Við náum ekki að hemja útgjöld Sjúkratrygginga eða ná utan um þau eins og tekist hefur á mörgum öðrum stöðum þar sem um krónískan hallarekstur hefur verið að ræða árum saman. Þar ber hæst þann mikla árangur sem náðst hefur hjá Landspítalanum, heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu og hjá fjölmörgum fleiri aðilum, sumum háskólanna sem voru í miklum erfiðleikum og mikilli framúrkeyrslu á undangengnum árum og hafa þeir að langstærstum hluta náð miklum árangri. Enn fremur er reynt er að koma til móts við aðila eins og kunnugt er með því að aðstoða þá við að takast á við uppsafnaðan skuldahala o.s.frv.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi nokkur atriði, þar á meðal sveiflukenndar tölur í innheimtu á einstökum tekjustofnum milli mánaða. Það er alveg rétt. Sumir mánuðir eru dyntóttari en aðrir í þeim efnum. Þó að reynt sé að leiðrétta með það í huga og tiltekin áætlun um tekjuinnstreymi sé sett upp eru alltaf talsverð frávik í henni. Það er auðvitað heildarútkoman sem skiptir mestu máli þegar upp er staðið. Ég ligg yfir þessum tölum þegar þær koma í hverjum mánuði og get hughreyst hv. þingmann með því að septembermánuður gaf ekki vísbendingu um að hlutirnir stefndu í einhverja verulega verri átt en ætla hefði mátt af ágústmánuði. Það virtist því nokkurn veginn aftur vera komið jafnvægi á í þeim efnum.

Eðlilegt er að menn velti fyrir sér: Eru undirliggjandi breytingar að einhverju leyti að verða, eins og var nefnt t.d. að svört atvinnustarfsemi hefði aukist, að stærra neðanjarðarhagkerfi væri að myndast? Það gæti þá birst í því að beinir skattar væru veikari en ástæða væri til en það kæmi hins vegar fram í eyðslusköttunum af því að einhvers staðar ráðstafa menn þeim peningum sem þeir fá í hendur án þess að borga beina skatta af þeim. Ég hef ekki ástæðu til að ætla það. Þvert á móti hefur verið tekið á ýmsu í því skyni að reyna að tryggja að hlutir séu taldir fram. Ég bendi á þá virku aðgerð að hækka endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts vegna endurbóta á íbúðarhúsnæði, sem reyndar var útvíkkað yfir í sumarhús og að hluta fasteigna sveitarfélaga, og núna með því að bjóða þeim upp á skattfrádrátt sem greiða launatekjurnar. Til samans ætti þetta að vera mjög virk aðgerð til að ná öllum slíkum umsvifum upp á yfirborðið. En menn hafa oft haft áhyggjur af því að hlutir fari að einhverju leyti fram hjá kerfinu sem og í ýmsum öðrum greinum. En um það er erfitt að segja fyrir.

Við erum að stórefla skatteftirlit. Ég held að það sé þegar farið að skila árangri. Það er rétt og skylt að gera það við þessar aðstæður, sem og auðvitað endranær. Sem betur fer gerir þróun í rafrænum framtölum og öðru slíku skattinum kleift að færa talsvert til mannskap úr hefðbundinni handfjötlun pappíra og handvirkri úrvinnslu framtala yfir í að hafa meira eftirlit. Sameining skattsins í eitt umdæmi er tvímælalaust til bóta í þeim efnum. Hún býður upp á aukna sérhæfingu og verkaskiptingu sem getur verið mjög gagnleg í sambandi við skatteftirlit.

Varðandi vaxtakostnaðinn og ádrátt á lánsheimildir okkar erlendis vil ég minna á að það hefur að aldrei staðið til að taka meira af þeim lánum eða taka þau hraðar en þörf er á, eins og við sýndum reyndar strax eftir fyrstu endurskoðun því að þá var ekki dregið að fullu á þann lánsrétt sem við öðluðumst vegna þess að gjaldeyrisstaða þjóðarbúsins var mjög góð. Það var ekkert sérstakt sem kallaði á að byggja forðann jafnhratt upp og lánsheimildirnar buðu upp á. Það sparaði vissulega vaxtakostnað. Með nákvæmlega sama hugarfari verða teknar ákvarðanir í framhaldinu um það í hvaða mæli, hversu hratt og hvenær lánsheimildirnar verða nýttar með það að marki að lágmarka fjármagnskostnaðinn.

Allra síðast vil ég segja við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, um utanríkisþjónustuna, að ég bjó ekki til það fyrirkomulag, þann húsakost eða þau útgjöld sem þar eru. Ætli ég hljóti ekki að mega segja að ég hafi tekið það í arf eins og fleira. Það gildir um húsakostinn sem sums staðar var veglegur og það gildir líka um fjölda sendiherra sem hafa verið allmiklu fleiri en sendiráðin, eins og kunnugt er.