139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjárhagsstaða sveitarfélaganna.

[16:35]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Til Danmerkur má sækja ýmislegt, m.a. fyrirmyndir að verklagi og samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Þar er löng hefð fyrir því að þessi tvö stjórnsýslustig vinni þétt og náið saman, m.a. að niðurskurðartillögum og þar eru tímabundið felld niður ýmis skylduverkefni sveitarfélaga.

Undir lok umræðunnar, sem ég þakka fyrir að hafi átt sér stað — menn heyra að það er ýmislegt sem alþingismenn með reynslu af sveitarstjórnarstiginu hafa til málanna að leggja — vil ég leyfa mér að vitna til orða formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga í ræðu sem hann flutti á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga. Í trausti þess að menn taki undir þessi orð vænti ég að hæstv. ráðherra svari spurningunni sem ég varpaði fram í ræðu minni við opnun umræðunnar. Spurningin kemur fram í orðum formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga. Með leyfi forseta:

„Við eigum að vinna saman, ríki og sveitarfélög, til að geta tekist á við ástandið. Það er ekki ásættanlegt að ríkið hirði alla skattana, færi tekjustofna frá sveitarfélögum til sín, lækki rekstrarkostnað hjá sér með laga- og reglugerðarbreytingum eða með því að fresta ýmsum ákvæðum laga og reglugerða er snúa að rekstri á vegum ríkisins og vilji svo ekki vinna með sveitarfélögunum að lækkun rekstrarkostnaðar. Við gerum þá kröfu að brugðist verði við endurteknum beiðnum sambandsins um að taka upp alvörusamstarf á þessum grundvelli.“

Sérstaklega vil ég, með leyfi forseta, vitna til erindanna sem sambandið hefur sent til menntamálaráðuneytisins um tímabundnar heimildir til þess að hliðra til lögum og reglugerðum sem gilda um grunnskólann.