139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

24. mál
[16:47]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Ég mæli fyrir frumvarpi til laga sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir flytur ásamt mér. Það telst vera um breytingu á lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, sem síðan hefur verið breytt.

Frumvarpið er mjög einfalt, tvær greinar, önnur er gildisgrein og hin er um það að tiltekinn hluti í 3. gr. laganna, sem um er rætt, falli brott. Það er sá hluti þar sem kveðið er á um sérstakar álagsgreiðslur til formanna þingnefnda og formanna þingflokka.

Að þessu frumvarpi samþykktu verða störf alþingismanna lögð að jöfnu hvað þingfararkaup varðar hvar sem þau eru unnin og hvernig sem þau eru unnin í samræmi við meginreglur lýðræðisskipunar. Þá á ég við það að þegar kjósendur hafa valið fulltrúa sína á þing sé jafnræði með þeim fulltrúum, hvað sem þeir heita, hvernig sem þeir eru á litinn, í hvaða röð sem þeir hafa verið kjörnir og án tillits til annarra þátta af því tagi. Undantekningar verða ræddar hér í lok ræðunnar.

Rök að baki þessum greiðslum eru vandfundin nema svona á tali við menn. Ég held að ekki sé neinn ritaður rökstuðning fyrir þessu, ég hef að minnsta kosti ekki fundið hann, en það sem menn nefna er auðvitað það að þetta sé svona eins og í samfélaginu, það sé þóknun fyrir sérstakar skyldur í þingstörfum, menn þurfi að gefa þessu góðan tíma og þetta sé ábyrgð og þeir þurfi að fylgjast með o.s.frv. Allt er það í sjálfu sér rétt. Formennska í þingnefnd eða þingflokki er ábyrgðarmikið starf og annasamt. Menn gera auðvitað margt annað á meðan en þeir þurfa að gæta að, þeir fá aldrei frí úr þessu starfi sínu. Það má nú segja um starf þingmannsins yfir höfuð að það er út af fyrir sig ekki frí jafnvel þó að menn telji sig vera í fríi, menn verða að fylgjast með og eru aldrei alveg lausir.

Um þessi störf, formennsku í þingnefnd og þingflokki, verður ekki annað séð en jafnframt þessum skyldum og þessari ábyrgð felist í slíku starfi þau áhrif og þau völd sem flestir alþingismenn, og væntanlega allir, sækjast eftir fyrir sjálfa sig, en þó einkum fyrir hönd kjósenda sinna og málstaðar. Það er að minnsta kosti ekki líklegt að ásókn minnki mjög í þessi störf þó að þessar álagsgreiðslur yrðu afnumdar. Það væri að minnsta kosti tilraun sem vert væri að gera og athuga hvað út úr henni kæmi. Það mætti þá setja álagið á aftur ef skortur verður á framboðum í þessi störf og væri þetta þing þá alveg einstakt, bæði í sögunni og í heiminum, um þau efni. Þetta er grunnástæðan fyrir því að við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir flytjum þetta frumvarp, jafnræði þingmanna — prinsipp sem við viljum að sé í heiðri haft.

Önnur ástæða er algjörlega augljós. Hún er sú að við þær aðstæður sem ríkja á Íslandi eigum við að spara. Við eigum að skera niður alla fitu eins og sagt er og ef þetta er ekki fita á líkama Alþingis veit ég ekki alveg hvað fita er. Okkur telst til að upphæðin, ég hef nú ekki farið í að kanna það nákvæmlega, enda er hún ekki alveg jöfn á hverjum tíma fyrir sig, gæti árlega verið, þessara álagsgreiðslna til um 16 þingmanna, um það bil 15 millj. kr. á ári. Það þykir nú ekki mikið hjá mönnum sem ætla að rústa fjárlagafrumvörpum eða byggja upp samfélag. Þetta eru þó kannski laun tveggja starfsmanna þingsins eða annarra og menn kunna að hafa um það val hér á þinginu, hvort þeir vilja frekar leggja niður þetta álag eða segja upp tveimur starfsmönnum þessarar góðu stofnunar.

Það er rétt að geta þess, ég hef kvartað yfir því að ekki væru til nein rök á prenti eða í riti um þetta álag, að frumvarpið sem varð að þeim lögum þar sem þessu var komið á frá 1995 — þetta er sem sé 15 ára — varð að lögum á rétt rúmum þremur tímum. Það var lagt fram klukkan 22 mínútur yfir 5 hinn 15. júní — takið eftir því 15. júní, þegar sumarþingi er að ljúka, fyrsta þingi eftir kosningar — og þrjár umræður voru teknar um það frá þessum tíma, 22 mínútur yfir 5 til rúmlega hálfníu, til klukkan 20.38. Þar tala nú ekki margir og þeir tala aðallega um annað en álagið þeir sem þarna tala, það var auðvitað fleira í þessu frumvarpi. Það fylgdi sem sé engin rökstuðningur þessari tillögu, hvorki í nefndarálitinu né í framsöguræðu nefndarformannsins, sem þá var ágætur maður og ábyrgðarmikill í samfélaginu, Vilhjálmur Egilsson. Aðrir þingmenn gerðu það ekki heldur. Af því það er gaman að sögu má minnast á að þessi lög komu líka við sögu hins fræga lífeyrisfrumvarps árið 2004. Með í þeim pakka var það að hækka átti þetta álag úr 15% í 20%, en þessu lífeyrisfrumvarpi var svona dauflega tekið, skulum við orða það kurteislega, og í nefnd var þetta eitt af því sem var gert, það var sumsé lækkað aftur úr 20 í 15%.

Ég sagði áðan að ég ætlaði í lokin að fjalla um aðrar undantekningar á jafnræði í þingfararkaupi hér á þinginu og er rétt að gera það. Ég hef verið spurður um það líka. Það er spurningin um varaforsetana. Þeir hafa líka álag, sem er 15%. Ég hygg að það hljóti að koma til greina, þegar forsætisnefnd fer yfir það hvað Alþingi þarf að leggja fram til fjárhagslegrar ögunar í samfélaginu, að hún skoði þetta líka, en í prinsipphugsun okkar greinum við þarna á milli varaforsetanna annars vegar og formanna þingnefnda og þingflokka hins vegar, vegna þess að þótt varaforsetastarfinu fylgi bæði traust og virðing er það ekki með sama hætti valda- eða áhrifastaða og formaður þingflokks og nefnda, hér er um að ræða fasta viðveru á tímum sem ekki henta endilega þingmennsku þeirra sem í þessu standa og því teljum við að öðru máli gegni um það og leggjum ekki til að það álag verði afnumið.

Önnur undantekning — þær eru auðvitað til. Það er forseti og ráðherrar, ég tel að það varði okkur ekki hér. Það eru formenn stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu, líka leifar frá lífeyrisfrumvarpinu 2004. Þó að ákvæði um það sé í sömu greininni teljum við að nokkuð öðru máli gegni um það, hvað sem menn vilja um það segja, því það fjallar í raun ekki um laun þingmanna eða störf þeirra heldur um stuðning hins opinbera við stjórnmálaflokka sem er ekki okkar málefni hér.

Ég lýk hér ræðu minni, forseti, og geri það að tillögu minni að að lokinni þessari umræðu gangi málið til allsherjarnefndar.