141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég varð svolítið undrandi að heyra hv. þingmann segja í lok kjörtímabilsins að atkvæðagreiðslan um skoðanakönnunina geri það að verkum að frumvörp í sjávarútvegsmálum verði betri og þá væntanlega frá ríkisstjórnarflokkunum sem hvað eftir annað hafa lagt fram frumvörp. Ég mundi ætla að hv. þingmenn stjórnarliðsins hafi haft nógan tíma til að leggja fram vandað frumvarp með því sem þeir vildu hafa í því. Það er svolítill uppgjafartónn og áfellisdómur yfir þeirra eigin störfum ef þeir segja að atkvæðagreiðsla í skoðanakönnun þurfi að koma til til að frumvörpin verði þokkaleg hjá þeim. En þetta er kannski í anda margs sem frá ríkisstjórninni hefur komið.

Ég vek athygli á því að enn er mikill vandi hjá heimilum í landinu varðandi skuldamálin. Það fer kannski lítið fyrir því í umræðum í þessum þingsal, við erum kannski að tala um annað sem kemur heimilunum kannski ekki til góða. Eitt af því sem fer undir radar er það að setja átti mál sem tengdist gengislánum, sem er einn vandinn, í hraðferð og því var lofað að það mundi klárast mjög hratt. Ég hef fylgst með þessu og engar líkur eru á því að við fáum niðurstöðu fyrr en 2013, jafnvel seint á árinu 2013. Það er augljóst að það að hafa ekki samþykkt frumvarp okkar sjálfstæðismanna um flýtimeðferð mun koma beint niður á heimilunum í landinu.

Ég hef áhyggjur af fleiri þáttum sem snúa að heimilunum. Nú eru heimilislæknar að vekja athygli á því að frá árinu 2008 hefur verið í gildi samningur við heimilislækna sem var gerður í tíð síðustu ríkisstjórnar sem ekkert hefur verið gert með, hann hentar mjög vel starfsumhverfi þeirra, var niðurstaða góðrar stefnumótunar. Við horfum fram á mjög alvarlega stöðu í heimilislækningum á Íslandi.