141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

landflutningalög.

124. mál
[18:41]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á landflutningalögum, nr. 40/2010. Flutningsmenn á þessu máli auk þess er hér stendur eru hv. þingmenn Margrét Tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Eygló Harðardóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Frumvarp þetta er mjög stutt og 1. gr. þess hljóðar svo:

Við 18. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:

Við ákvörðun um flutningsgjald skal sundurgreina hvern kostnaðarlið. Óheimilt er að binda veittan afslátt við heildarflutning (framhaldsfrakt).

2. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Frú forseti. Í greinargerð með þessu frumvarpi segir eftirfarandi:

Markmið frumvarpsins er að gera strandsiglingar aðlaðandi kost í innanlandsflutningum en strandsiglingum stóru skipafélaganna var hætt í lok árs 2004. Í kjölfarið hefur flutningum innan lands einkum verið sinnt með landflutningum með stórauknu álagi á vegakerfi landsins og slysahættu. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þann hátt að flutningafyrirtæki verði að sundurgreina hvern kostnaðarlið fyrir sig og ekki verður heimilt að gefa eingöngu upp eitt heildarverð. Einnig eru lagðar til breytingar er varða afslátt á flutningsgjaldi, þ.e. að óheimilt verði að binda veittan afslátt við heildarflutning eða svokallaða framhaldsfrakt. Má til að mynda nefna dæmi um vöru sem sótt er í fyrirtæki í Reykjavík, komið fyrir í flutningabíl og flutt til Akureyrar. Þar er varan flutt í annan bíl sem flytur hana svo til Húsavíkur. Flytjandinn veitir viðskiptavininum afslátt á grundvelli þess að um heildarflutning er að ræða sem veikir stöðu annarra flytjenda sem gætu mögulega boðið lægra verð á flutningi vörunnar frá Akureyri til Reykjavíkur. Á grundvelli afsláttarkjaranna velur viðskiptavinurinn hins vegar þann flytjanda sem bindur afsláttinn við heildarflutning.

Um kostnað við viðhald vega segir áfram í greinargerðinni:

Í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn um umferðarslys og vöruflutninga kemur fram að þungaumferð er talin vera um 8% af heildarumferð. Fjárveiting til viðhalds vega árið 2011 er 4.679 millj. kr. svo að gróflega megi áætla að rekja megi rúmlega helming af þeim kostnaði til vöruflutningabifreiða en tvo þriðju ef horft er til allrar þungaumferðar. Í skýrslunni Mat á hagkvæmni strandsiglinga á Íslandi , sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið lét vinna og birt var í maí 2010, eru ýmsir kostir strandsiglinga tíundaðir, m.a. þó nokkrir sem of langt mál er að fara yfir hér.

Að mati flutningsmanna frumvarpsins á það ekki að vera kostur fyrir fyrirtæki að velta rekstrarkostnaði yfir á skattgreiðendur en það virðist einmitt hafa gerst þegar flutningar voru færðir af sjó upp á land. Mikill viðbótarkostnaður er við viðhald á vegum landsins vegna vöru- og þungaflutninga, umfram það sem innheimtist í gegnum olíugjald, enda tekur það ekki mið af mismunandi slitnotkun bifreiða. Það að flutningsaðilar geti velt stórum hluta af heildarkostnaði við flutningana yfir á skattgreiðendur leiðir til of mikilla þungaflutninga á vegum í samanburði við aðra flutningsmöguleika og að þeir samgönguhættir sem eru þjóðhagslega hagkvæmastir ná ekki að þróast. Mikilvægt er að gegnsæi ríki í öllum niðurgreiðslum en sterk rök eru fyrir því að flutningskostnaður sé niðurgreiddur vegna byggðasjónarmiða.

Svo segir um öryggismál:

Í fylgiskjali með frumvarpinu er svar frá innanríkisráðherra þar sem farið er yfir slys vegna vöruflutningabifreiða. Þar kemur fram að tíðni banaslysa er mun hærri þegar slíkir bílar koma við sögu en ekki og að samfélagslegur kostnaður sem og beinn kostnaður er meiri. Þá má benda á að rök eru fyrir því að ýmis hættuleg og eldfim efni sé öruggara að flytja á sjó en á landi.

Frú forseti. Þetta mál er í rauninni mjög einfalt og samþykkt þess mundi leysa þann hnút sem þungaflutningar á landi eru. Við höfum verið í samtölum við aðila sem telja sig geta og vilja greinilega hefja hér strandflutninga en það sem kemur í veg fyrir að þeir geti gert það er að verðlagning þeirra sem nú eru í landflutningum og flutningastarfsemi almennt eru með algjörlega ógagnsæjar verðskrár. Flutningur á gámi frá Singapore til Siglufjarðar fellur til dæmis undir eitt heildarverð alla leiðina og svo fær viðskiptavinurinn væntanlega einhvern afslátt af heildarverðinu. Þetta er alfarið ákvörðun flutningafyrirtækisins sem flytur fraktina alla leið og ómögulegt er að gera sér grein fyrir því hvað kostar að flytja þennan gám landleiðina frá Reykjavík til Siglufjarðar, en þá leið er farið með vöruna eftir að hún kemur til landsins.

Þegar gagnsæi á verðlagningu verður komið í gegn með þessu frumvarpi er að minnsta kosti hægt að hefja strandsiglingar vestur og norður fyrir land og sennilega hringinn í kringum landið og velja slíka flutninga sem hagkvæman kost. Eins og fram kemur í frumvarpinu er kostnaður við slit á vegum í fyrsta lagi ekki reiknaður inn í fraktina og í öðru lagi þá er sá fákeppnis- og jafnvel einokunarmarkaður sem flutningafyrirtækin búa við í dag orðinn gagnsærri og menn geta gert sér grein fyrir því hvað það kostar raunverulega að flytja vöru landleiðina annars vegar og sjóleiðis hins vegar.

Þegar sjóflutningum var hætt á sínum tíma var það einfaldlega vegna beinnar ákvörðunar skipafélaganna sem töldu sig sjálf hagnast meira á því að flytja vöruna landleiðina og þar sem þau gátu falið allan kostnað við flutninga landleiðina í heildarkostnaðinum við flutninginn frá upphafsstöð til endapunkts þá var aldrei nokkur möguleiki fyrir nýja aðila í þessum geira að keppa við stóru fyrirtækin.

Samkvæmt því sem þeir sem gerst þekkja til í strandflutningum telja gerir þetta frumvarp það að verkum að hægt verður að taka hér upp hagkvæma strandflutninga aftur og það gerir líka að verkum að væntanlegt frumvarp hæstv. innanríkisráðherra um niðurgreiddar strandsiglingar verður algjörlega óþarft, enda er æskilegt ef hægt er að koma því við að atvinnustarfsemi standi á eigin fótum og þurfi ekki beina niðurgreiðslu frá ríkinu. Þessi litla breyting á landflutningalögum með viðbót við 18. gr. gerir það að verkum að umhverfi flutninga á landinu mun breytast til hins betra, slit á þjóðvegum mun verða miklu minna, gagnsæi í verðmyndun á flutningum mun verða miklu meira og strandsiglingar hefjast að nýju til hagsbóta fyrir þá sem flytja mikið af þungri vöru.

Að sjálfsögðu mun dagvara og matvara, þ.e. fersk vara, áfram verða flutt landleiðina en það er gríðarlega mikið magn af vöru, t.d. ýmiss konar byggingarvörur, sem er mjög þung, sem er flutt landleiðina þegar hægt væri að flytja hana miklu ódýrar með skipum.

Það er von mín að það frumvarp sem flutt er hér í annað sinn fái viðeigandi framgang hjá umhverfis- og samgöngunefnd og verði sem fyrst að lögum.