143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

bygging nýs Landspítala.

[15:18]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í stöðu Landspítalans. Í sumar var hv. þm. Guðbjartur Hannesson með sérstaka umræðu þar sem hann spurði út í stöðu mála. Orðrétt spurði hann, með leyfi forseta:

„Hvað hyggst hæstv. heilbrigðisráðherra gera varðandi framhald byggingar nýs Landspítala? Eru áform um að hætta við forvalið sem nú er í gangi? Liggja fyrir áætlanir um framhald byggingarinnar?“

Svarið var eitthvað á þá leið að ekki væri gert ráð fyrir þessum útgjöldum og að lítið svigrúm væri hjá ríkissjóði. Sagt var að við gætum ekki farið að hugsa alvarlega um steypu fyrr en við værum komin með þétt þak á því félagslega neti sem væri í heilbrigðiskerfinu. Það var mikið talað um steypu í þessum umræðum, man ég. Okkur í Bjartri framtíð fannst ekki alveg skýrt hvað stjórnvöld ætluðu sér að gera og höfðum áhyggjur af því að þessi óvissa mundi auka enn frekar á ólguna á Landspítalanum og það var nákvæmlega það sem gerðist.

Við töldum mikilvægt að starfsfólk Landspítalans og landsmenn allir vissu nokkurn veginn hvað framtíðin bæri í skauti sér. Við sendum þess vegna inn skriflega fyrirspurn til hæstv. ráðherra og spurðum, með leyfi forseta: Er ráðgert að hefja framkvæmdir við nýbyggingar og endurbætur á húsakosti Landspítalans á þessu kjörtímabili?

Við vorum að fá svar fyrir stuttu og því er svarað játandi. Ekki er farið nánar út í málið en þó sagt að verið sé að vinna að endurskoðaðri framkvæmdaráætlun í samstarfi við stjórn nýs Landspítala ohf. og stjórnendur Landspítala. Síðan er talað um að það þurfi ítarlega greiningarvinnu og hún sé nú í gangi. Okkur finnst svarið heldur loðið.

Ítarleg greiningarvinna hefur verið í gangi í mörg ár. Við veltum eftirfarandi spurningum fyrir okkur: Mun hæstv. ráðherra byggja á þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram? Er hún á einhvern hátt ófullnægjandi að mati hæstv. ráðherra? Það er enginn að tala um að taka fyrstu skóflustunguna á morgun en okkur finnst ekki gott að það liggi ekki fyrir plan, jafnvel þótt það yrði tíu ára plan, um það hvernig við viljum haga uppbyggingu Landspítalans. Ég held við séum öll sammála um að uppbygging þarf að eiga sér stað. Ég spyr nákvæmlega: Hver er stefna stjórnvalda í þessu máli?