144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í framhaldi af nýliðinni kjördæmaviku þar sem rætt var við okkur þingmenn Norðausturkjördæmis um hin ýmsu mál bar eitt mál sérstaklega mikið á góma, þ.e. fyrirhugaður niðurskurður í framhaldsskólum á landinu. Ég kallaði þetta laumufarþega í niðurskurði í fjárlagafrumvarpinu og þess vegna langar mig að eiga orðastað við hv. 5. þm. Norðaust., hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur um þetta mál.

Um þennan niðurskurð var rætt við okkur á eiginlega öllum fundum og fram komu miklar áhyggjur. Í okkar kjördæmi eru margir dreifbýlisskólar sem kallast svo. Boðaður er niðurskurður upp á 350–400 nemendaígildi og að allir sem eru 25 ára og eldri geti ekki lengur farið í framhaldsskóla heldur eigi að fara í símenntunarmiðstöðvar, sem ekki fá fjármagn til þess að sinna því verkefni. Þetta þýðir í raun og veru uppsagnir kennara ef þetta gengur eftir og þær hefðu sennilega átt að vera settar fram 1. október vegna þess að fjárhagsárið gildir frá og með næstu áramótum. Síðan, rúsínan í pylsuendanum, berst okkur til eyrna að á fundi í menntamálaráðuneytinu 10. september, þ.e. daginn eftir að fjárlagafrumvarp var rætt hér, hafi verið sýnt kort í menntamálaráðuneytinu til skólameistara af Íslandi og einhverri litadýrð þar inni á, sem voru áform eða hugmyndir ráðuneytisins um sameiningar skóla.

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að lýsa því öðruvísi en að í þessum málum sé fjárlagafrumvarpið landsbyggðarfjandsamlegt. Ég verð því miður að nota orðið „árás“ á framhaldsskóla í þessum litlum byggðarlögum vítt og breitt um landið. Þess vegna er það spurning mín til hv. þingmanns, sem er í sama kjördæmi og ég og hlustaði á sömu áhyggjuorðin: Styður hv. þingmaður þann niðurskurð og þau sameiningaráform sem boðuð eru í fjárlagafrumvarpinu?