144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umferðaröryggismál.

[14:43]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þá málefnalegu og þörfu umræðu sem við höfum átt hér. Margar góðar hugmyndir hafa komið fram en það sem skín í gegn er samstaðan um málaflokkinn. Það var kannski ástæðan fyrir umræðunni, að kalla fram þessa samstöðu. Nú þurfum við að taka þessa samstöðu með okkur inn til fjárlaganefndar og í vinnu þingsins og fylgja henni eftir, sýna að nú þurfum við að forgangsraða í þágu þessa málaflokks. Það er mjög mikilvægt.

Einnig hafa komið fram margar hugmyndir um aðrar leiðir í fjármögnun sem er eðlilegt að skoða. Nú eru margar bifreiðar sem borga minna í vörugjöld og annað slíkt — þá er spurning hvort hægt er að fara frekar í einkaframkvæmd með fjármögnun vegtolla.

Einnig komu fram hugmyndir sem þurfa ekki að kosta mikið, eins og að auka merkingar. Það þarf kannski ekki að vera mjög kostnaðarsamt en getur skilað góðum árangri. Ég fagna því svo sérstaklega hversu vel var tekið undir þá hugmynd, sem margir hafa teflt fram, að auka umferðareftirlit með því að færa eftirlit Samgöngustofu til lögreglunnar. Þar munum við nýta fjármuni og auka umferðaröryggi töluvert án þess að auka fjármuni.

Ég ítreka að nú er það okkar að fylgja þessu eftir, að forgangsraða fjármunum í þágu umferðaröryggis við gerð fjárlaga og fyrir 2. umr. Ég tel það mjög mikilvægt. Þetta er líka heilbrigðismál eins og við komum inn á áðan. Þetta kostar mannslíf, þetta er álag á allt heilbrigðiskerfið og þess vegna er þetta mjög mikilvægt. Ég held að það hjálpi okkur að taka þessa ákvörðun og hjálpi okkur að forgangsraða ef við ræðum þetta nógu oft og fræðumst nógu mikið um þennan alvarlega hlut. Þannig tökum við réttar ákvarðanir.