146. löggjafarþing — 15. fundur,  24. jan. 2017.

bréf frá formönnum þingflokka stjórnarflokkanna.

[13:38]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseta hefur borist bréf frá formönnum þingflokka stjórnarflokkanna þar sem vísað er til þess fyrirkomulags sem niðurstaða varð um í samkomulagi flokka á þingi í byrjun desember; að kjósa, með fyrirvara um mögulegar breytingar, forseta Alþingis og í forsætisnefnd og þær fastanefndir sem nauðsynlegt var vegna starfa þingsins fyrir jólahlé.

Í niðurlagi bréfsins segir: Hinn 11. janúar sl. tók ný ríkisstjórn til starfa og nýr meiri hluti hefur myndast er Alþingi kemur nú saman til framhaldsfunda. Er því komið að því að fullnusta það samkomulag sem gert var í desember. Formenn þingflokka stjórnarflokkanna óska því hér með eftir því að á ný verði kosið til fastanefnda samkvæmt 13. gr. þingskapa, svo og til alþjóðanefnda, samanber 35. gr. þingskapa, og jafnframt að forseti og varaforsetar sem kosnir voru 6. desember sl. segi af sér embættum þannig að ný kosning geti farið fram.

Undir þetta rita formenn þingflokka stjórnarflokkanna Birgir Ármannsson, Hanna Katrín Friðriksson og Theodóra S. Þorsteinsdóttir.

Í framhaldi af því að þetta bréf barst forseta var boðað til fundar í forsætisnefnd síðdegis í gær og er skemmst frá því að segja að forseti og allir forsætisnefndarmenn féllust góðfúslega á tilmælin og segja því hér með af sér embættum.

Í ljósi þess sem hér hefur fram komið bíður okkar það verkefni næst að kjósa að nýju forseta Alþingis og varaforseta, þ.e. fulltrúa í forsætisnefnd. Forseti hyggst því boða til fundar þegar að loknum þessum fundi þannig að slík kosning geti farið fram.

Ég vil við það tækifæri þakka hv. þingmönnum fyrir samstarfið þann stutta en óvenjulega, jafnvel má segja sögulega, tíma sem ég hef gegnt þessu embætti. Ég þakka sömuleiðis skrifstofustjóra og öllu starfsfólki Alþingis. Ég get vísað aftur til þess sem ég hafði á orði er fundum Alþingis var frestað fyrir jól að Alþingi sýndi með störfum sínum í desember að það er fullfært um að leysa sín verkefni vel af hendi þótt tímabundið hafi hér ekki myndast formlegur meiri hluti og minni hluti og ekki starfi framkvæmdarvald í umboði Alþingis.

Ég á mér þá ósk Alþingi til handa að sjálfstæði þess og sjálfstraust eflist á nýjan leik og reynslan frá þingstörfunum fyrir jól getur vel nýst í því skyni ef menn svo kjósa. Þó að ekki standi enn í stjórnarskrá Íslands að allt vald spretti frá þjóðinni er það svo í reynd og á að vera og það er hingað inn, á Alþingi, sem það vald er framselt í kosningum. Það er þá héðan sem því valdi er eftir atvikum dreift. Það er hingað sem ríkisstjórn hvers tíma, framkvæmdarvaldið, sækir umboð sitt en ekki öfugt. Þetta er okkur öllum hollt að hafa í huga.

En nú er ekki tilefni frekari orðalenginga, okkar bíða án efa fjölmörg og ef að líkum lætur sumpart krefjandi viðfangsefni á því kjörtímabili sem í hönd fer og svo lengi sem það varir. Það er því eins gott að fara að koma sér að verki.