148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:44]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við um áætlanir ríkisstjórnarinnar í fjármálum til næstu fimm ára. Eins og allir muna, og ekki er langt um liðið, þeyttum við í gegnum þingið á ljóshraða fjárlögum fyrir árið 2018, fjárlögum sem um margt ég er svolítið sorgmædd yfir, vegna þess að sú kona sem hér stendur er hér í ákveðnum tilgangi. Hugsjón mín lýtur að því að setja fólkið í landinu í forgang og mér er alveg nákvæmlega sama hvaða mál það eru sem koma á dagskrá. Númer eitt, tvö og þrjú er fólkið í landinu, almenningur í landinu.

Í gær stóð ég hér og talaði um fíknivanda. Ég talaði um þá sorglegu stöðu sem lýtur að unga fólkinu og þeim sem glíma við þann erfiða sjúkdóm sem fíknin er.

Hvað sjáum við í fjárlögunum fyrir árið 2018? Og hvernig mun það sýna sig í fjárhagsáætlun ríkisstjórnar til næstu fimm ára hver vilji þeirra er í verki til að taka utan um fátækt fólk í landinu, barnafjölskyldur, öryrkja, eldri borgara og fíklana okkar?

Talað er um 33 milljarða kr. rekstrarafgang ríkissjóðs. Hæstv. fjármálaráðherra, sem ég sakna að sé ekki hér þegar við ræðum þetta stóra mál, kom hingað fyrr í dag þegar hann mælti fyrir tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu og talaði um að hér sé mikill hagvöxtur, hér sé mikið góðæri, allir eigi að njóta þess að vera til og allir eigi að geta tekið þátt í þessu góðæri.

Ég veit ekki, herra forseti, hvernig maður getur eiginlega litið á þetta. Er þetta eitthvert grín? Er það vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra er ekki í tengslum við almenning í landinu, hefur aldrei staðið í þessum sporum? Hvernig í veröldinni stendur á því að ítrekað er reynt að loka augunum eða horfa fram hjá því að það eru tugir þúsunda Íslendinga í basli í öllu þessu góðæri? Í öllu þessu góðæri, herra forseti, þá er endalaust verið að hrópa á hjálp og biðja um hjálp, okkur sem hér stöndum, okkur sem hingað eru valin til verksins, þessa 63 fulltrúa löggjafans, sem eigum og ber skylda til að hugsa fyrst og síðast um hag allra landsmanna en ekki bara sumra.

Ég sakna þess að fólkið okkar skuli ekki vera sett frekar í forgang. Hugsið ykkur, af þessum 33 milljarða kr. afgangi — myndi þjóðarskútan fara á hliðina ef við myndum strax taka t.d. 3% og setja í fíknivandann og aðstoða þá sérfræðinga sem glíma við þann vanda? Það þýðir hvorki meira né minna en 100% fjáraukningu til SÁÁ og þeirrar starfsemi sem þar fer fram. Við myndum hreinlega tvöfalda afköstin hjá SÁÁ. Setti það þjóðarskútuna á hliðina þótt við segðumst vera með 32 milljarða afgang en ekki 33 milljarða afgang? Gerði það gæfumuninn? Ég segi nei. Í öllu falli er það fólkið okkar sem á alltaf að vera í forgangi, fólkið þegar kemur að útdeilingu fjármuna úr ríkissjóði. Það á alltaf að njóta vafans.

Þess vegna segi ég að margt má í rauninni betur fara, en góðra gjalda vert margt af því sem hefur komið fram í þeim góða vilja sem virðist ríkja á margan hátt hjá ríkisstjórninni. En er það bara í orði? Ég vil sjá það á borði áður en maður getur farið að róma eitthvað og óska þeim til hamingju. En ég skal líka verða fyrsta manneskjan til að óska þeim til hamingju þegar þeir fara að standa við stóru orðin, en í staðinn horfir maður upp á sáttmála sem í rauninni er svo opinn í báða enda og svo kafloðinn að maður veit ekki hvað í veröldinni hann er að segja nema góð fyrirheit og einhverjar yfirlýsingar um eitthvað sem kannski verður svona, hugsanlega hinsegin, verður sett í þetta og vonandi verður það svona.

Hvað er ég að segja? Ég skil mig ekki einu sinni sjálf frekar en stjórnarsáttmálann. Ég vil sjá þennan vilja í verki. Ég vil sjá framkvæmdir strax. Ég vil sjá strax tekið utan um fólkið sem virkilega þarf á hjálp að halda. Ég kem ekki til með að segja neitt annað í þessari hæstv. pontu Alþingis.

Ég hef enga ástæðu til að nýta hér allan þann tíma sem mér er gefinn. Ég vil einungis halda áfram að koma því á framfæri sem er hjartans mál Flokks fólksins og hjartans mál okkar sem erum hér og nú fyrir fólkið í landinu fyrst og síðast.

Ég tel að þeir sem sinna sínum atvinnuvegi og hafa gert vel og þeir sem standa að því að verða milljarðamæringar á auðlindum hafsins, geti einfaldlega miklu frekar séð um sig sjálfir. Ég þarf ekki að standa hér til að aðstoða þá.