148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:50]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Við ræðum fjármálastefnu til næstu fimm ára. Maður segir nú stundum: Þetta er nú alveg örugglega skemmtilegasta umræðuefni þingsins, sem lýsir sér kannski í því hversu mikill flótti brast á þingmenn þegar hæstv. fjármálaráðherra hóf framsögu málsins. En það dregur ekki úr mikilvægi þess. Þetta er fjármálastefna ríkisins til fimm ára, grundvallarplagg sem markar, getum við sagt, hlutverk ríkissjóðs í efnahagsstefnunni til næstu fimm ára og dregur upp rammann utan um þau verkefni sem ríkisstjórn hvers tíma ætlar að ráðast í.

Þess vegna er það eitt helsta áhyggjuefnið að mínu viti þegar við horfum á þessa tilteknu fjármálastefnu hversu lítt unnin hún er. Henni er fleygt saman á mjög stuttum tíma. Það er alveg ljóst að ekki liggur fyrir neitt mat á eiginlegum áhrifum hennar á hagstjórnina og kemur raunar mjög skýrt fram bæði í stefnunni sjálfri og umsögn fjármálaráðs um hana að sú þjóðhagsspá sem lögð er til grundvallar þessari fjármálastefnu byggir á fjármálastefnu fyrri ríkisstjórnar og þar af leiðandi þeim áhrifum sem ríkisfjármálin hefðu inn í hagkerfið á næstu fimm árum.

Þetta er nokkurt lykilatriði. Umræða um fjármálastefnu, það sem skrifað er um hana, hvort sem er í stefnunni sjálfri eða umsögn fjármálaráðs eða annarra aðila, er, svo maður segi það á hreinni íslensku, alveg hundleiðinlegt tæknimál. Maður þarf að hafa sig allan við til að halda sér vakandi við lesturinn. En enn og aftur dregur það ekki úr mikilvægi þess sem þar er fjallað um. Þess vegna er ágætt að rifja upp af hverju við erum að þessu.

Öll umgjörðin um opinber fjármál hefur mjög skýran, einfaldan tilgang: Að ríki axli sína ábyrgð í hagstjórn, að ríkisfjármál leggi sitt af mörkum til að tryggja meiri stöðugleika í efnahagslífinu sem fyrir almenning þýðir einfaldlega lægri verðbólgu og lægri vexti en ella. Það er ekki mikið flóknara en það sem allt þetta tæknimál snýst á endanum um.

Þá er náttúrlega lykilágalli á slíkri stefnu að henni fylgir ekkert mat á hvaða áhrif hún hefur á þessa þætti. Við vitum það af umsögn fjármálaráðs að dregið er úr aðhaldi ríkisfjármálanna þrátt fyrir að fjármálaráð vari við því og segi að ástæða sé til að standa á bremsunni við þær kringumstæður sem hér eru. Við vitum líka af umræðunni um fjárlög þessarar ríkisstjórnar að Seðlabanki telur stefnu nýrrar ríkisstjórnar í þessum efnum þensluhvetjandi, að hún leiði til hærri vaxta, hærra gengis en ella, meiri hættu á efnahagslegum óstöðugleika. Þar af leiðandi væri eðlilegt og ég vona að verið sé að vinna nánari greiningu á áhrifum stefnunnar inn í efnahagsumhverfið til þess að þingið geti glöggvað sig á því, og ekki hvað síst fjárlaganefnd, í umræðu um stefnuna núna á komandi dögum og vikum. Ég átta mig þó á að það var skammur tími fyrir starfsmenn í fjármálaráðuneytinu til að vinna þessa stefnu.

Kjarni málsins er: Hvernig axlar ríkið ábyrgð sína þegar kemur að efnahagsstjórninni? Hvernig stuðlar ríkið að því að efnahagslegur stöðugleiki verði meiri en ella? Það eru lykiláskoranirnar núna þegar við horfum fram á veginn og kemur það mjög skýrt fram í umsögn fjármálaráðs. Þrátt fyrir að við gerum ráð fyrir að heldur sé að hægja á hagvexti er spenna í hagkerfinu Við megum heldur ekki gleyma að spárnar okkar undanfarin tvö, þrjú ár hafa alltaf gert ráð fyrir umtalsvert minni hagvexti en raunin hefur orðið. Þess vegna er alveg klárt að ríkisfjármálastefnan við þær kringumstæður þarf að vera mjög aðhaldssöm þangað til það er orðið deginum ljósara að kominn sé raunverulegur slaki í hagkerfið. Þann slaka sjáum við hvergi enn þá. Þvert á móti sjáum við öll hefðbundnu ofhitnunarmerkin ef eitthvað er. Við sjáum einkaneyslu aukast verulega og langt umfram framleiðnivöxt í hagkerfinu og gera hagspár ráð fyrir sömu þróun áfram. Sú hagspá sem þessi fjármálastefna byggir á gerir líka beinlínis ráð fyrir að laun hækki langt umfram það þanþol sem hagkerfið hefur, eða framleiðniaukningu að viðbættu verðbólgumarkmiði. Og sú hagspá gerir ráð fyrir að verðbólga verði alveg í eða yfir verðbólgumarkmiði út spátímann.

Þá er líka gott að hafa í huga að sú hagspá, eins og fjármálaráð gerir raunar grein fyrir í umsögn sinni, byggir á spálíkönum okkar sem hafa alltaf verið gagnrýnd fyrir það sama: Þau spá alltaf mjúku lendingunni sem aldrei kemur. Íslenska hagkerfið hefur ekki verið þekkt fyrir mjúkar lendingar hingað til. Við höfum þvert á móti verið þekkt fyrir mjög öfgakenndar sveiflur í báðar áttir. Við erum með hagvöxt sem er yfirleitt langt umfram hagvöxt í nágrannalöndum okkar þegar vel gengur og svo kemur verulegt bakslag í seglin þegar við ofrísum, eins og okkur er svo hætt við að gera. Það þýðir öðru fremur að ríkisfjármálin verða að vera alveg sérstaklega aðhaldssöm þegar við stöndum á hápunkti hagsveiflunnar.

Auðvitað er til staðar hinn hefðbundni freistnivandi, að þegar fjármunir streyma inn í ríkissjóð sé nauðsynlegt að ráðast í öll þau verkefni sem hugurinn girnist. Þá er mjög freistandi að auka verulega í t.d. í samneyslunni, líkt og verið er að gera núna. Það er raunar búin að vera fordæmalítil útgjaldaaukning í ríkissjóði á undanförnum þremur árum í það minnsta. Hér erum við að endurtaka hagstjórnarmistök fyrri ára sem við höfum verið ítrekað vöruð við. Við erum að auka útgjöld mjög mikið í mikilli þenslu, kynda bálið.

En þegar kemur að einu af kjarnagildum opinberra fjármála, eða laga um opinber fjármál, þ.e. sjálfbærni ríkisfjármálanna, er það einmitt lykilatriði. Getum við staðið undir þeirri samneyslu sem við höfum lofað þegar hægist á í hagkerfinu og tekjur ríkissjóðs dragast saman? Þar kemur að verulegum veikleika í fjármálastefnunni og raunar líka í þeirri fyrri, sem fjármálaráð bendir á; við þurfum að hagsveiflujafna afkomu ríkissjóðs. Við verðum að átta okkur á því hvar við stöndum í sveifluleiðréttri afkomu ríkissjóðs því að það segir okkur öðru fremur undir hvaða samneyslustigi við getum staðið. Við áttum okkur fyllilega á því að í síðustu niðursveiflu þurfti ríkissjóður að skera inn að beini þá þjónustu við borgara þessa lands því að ríkissjóður hafði einfaldlega ekki efni á að standa undir þeim loforðum sem gefin höfðu verið.

Í tíð ríkisstjórnarinnar sem var á árunum 2007–2009 var einmitt spýtt verulega í á grundvelli góðs gangs í hagkerfinu og nægt fé streymdi inn í ríkissjóð. Það er ágætt að rifja það upp enn og aftur. Ég minnist þess að hafa átt samtöl við hæstv. fjármálaráðherra um það í öðru starfi. Það er enginn sem græðir meira á efnahagslegum óstöðugleika í uppsveiflunni en ríkissjóður. Það rignir bókstaflega inn fé í ríkissjóð á þeim tíma. Sérstaklega þegar vinnumarkaðurinn fer fram úr sér eins og hann hefur gert núna og launahækkanir eru, eins og er óumdeilt, talsvert umfram framleiðniaukningu.

Við sluppum hins vegar, að því er virðist, fyrir horn með það en erum með varhugaverða stöðu núna. Það þýðir að tekjuafgangur ríkissjóðs er fyrir vikið miklu sterkari. Einkaneyslan skilar ríkissjóði svo miklu í skatttekjum heilt í gegn. Það er einmitt á þeim tímapunkti þegar við sjáum sérstaklega að hagsveiflan er að breytast úr útflutningsdrifnum hagvexti yfir í einkaneysludrifinn hagvöxt sem tekjuafgangur ríkissjóðs verður hvað sterkastur. Í ljósi þess sem ég sagði áðan um að við lendum sjaldnast mjúklega og erum þvert á móti útgildi í öllum samanburði þegar kemur að hagvexti bæði í vextinum og samdrættinum, að þó að meðaltalið sé fínt þurfum við einmitt að nýta hin sterku tekjuár til að búa í haginn fyrir þau mögru. Og við erum enn þá of skuldsett. Ég hef mestar áhyggjur af því, og við ræddum það ítarlega í umræðu um fjárlög, að ekki sé verið að leggja nægjanlega áherslu á niðurgreiðslu skulda þegar svona vel árar í hagkerfinu.

Það er eiginlega óhugsandi að ríkissjóður fari inn í næstu niðursveiflu enn með 70–80 milljarða vaxtabyrði á ári. Það eru fjármunir sem við viljum á þeim tímapunkti geta nýtt í samneyslu en ekki vaxtakostnað. Þess vegna hef ég þyngstar áhyggjur af því að þegar boðað er í þessari fjármálastefnu að slaka á aðhaldskröfu ríkisfjármálanna á sama tíma og öll varnaðarorð eru uppi um að einmitt þurfi að standa á bremsunni, að ekki sé verið að leggja næga áherslu á að búa í haginn fyrir magrari ár. Auðvitað er það vel þekkt og almenn pólitísk samstaða um það í þessum sal að það er gríðarlega mikilvægt að standa að uppbyggingu innviða eftir langvarandi svelti. Um það er ekki deilt. Það er gríðarlega mikið undir í uppbyggingu samgöngukerfa, auknu fjármagni til viðhalds, uppbyggingu í heilbrigðiskerfið, uppbyggingu í félagslega kerfið. Þetta eru allt saman gríðarlega mikilvæg verkefni en við verðum fyrir það fyrsta að geta staðið undir því loforði sem við gefum til lengri tíma litið. Um það snýst jú sjálfbærni ríkisfjármálanna án þess þó að þurfa að grípa til verulegra skattahækkana þegar dregur saman í hagkerfinu. Enn og aftur: Það er mikilvægt að ríkið hjálpi til í hagstjórninni með því að sýna aðhaldssemi í uppsveiflunni en þurfi ekki að herða að hagkerfinu í niðursveiflunni með því að hækka skatta til að afla sér tekna. Það er kjarni málsins þegar við ræðum fjármálastefnuna. Hér er verið að marka línuna. Marka stefnuna til næstu fimm ára um hvernig við ætlum að láta ríkisfjármálin virka inn í þessa hagsveiflu. Þrátt fyrir að hún sé orðin ein sú lengsta í Íslandssögunni erum við ekki farin að sjá fyrir endann á henni. Það er engin forsenda fyrir því fyrir ríkissjóð að slaka á eða réttara sagt eins og það er orðað í umsögn fjármálaráðs, að stíga á bensíngjöfina á þessum tímapunkti þegar öll rök hníga einmitt að því að standa þurfi á bremsunni.

Þarna held ég að við þurfum í meðhöndlun fjárlaganefndar um fjármálastefnuna, í seinni umræðu um hana og vonandi á milli umræðna, að fá fyllri mynd. Ég kalla eftir því við hæstv. fjármálaráðherra. Annars vegar að gerð verði tilraun til að átta sig á hver hin hagsveifluleiðrétta staða okkar er í ríkisfjármálum núna og hins vegar hvaða áhrif fjármálastefnan muni hafa inn í hagspárnar. Að við fáum einhverja sýn á hvaða máli það skiptir í hagstjórnarlegu samhengi að verið sé að slaka á klónni núna.

Við höfum rætt um skynsemi í tímasetningum á skattalækkunum. Ég skil mætavel rök þeirra gagnrýnenda sem segja: Hvenær í ósköpunum er eiginlega hægt að lækka skatta ef ekki má gera það í uppsveiflunni af hagstjórnarlegum ástæðum? Og ríkissjóður hefur ekki efni á að lækka þá í niðursveiflunni. Þess vegna skil ég mætavel að talsmenn skattalækkana, sem ég tel mig vera á meðal, gagnrýni að stefna Viðreisnar t.d. í þeim efnum hafi verið sú að við verðum einfaldlega að greiða niður skuldirnar fyrst áður en við getum skapað svigrúm fyrir skattalækkanir. Það er sú grundvallarhugarfarsbreyting, sú stefnubreyting, sem lögin um opinber fjármál eiga að fela í sér en okkur hefur ekki auðnast að komast alla leið með enn þá, þ.e. að ríkissjóður búi í haginn. Að við snúum ríkisfjármálunum algerlega á haus miðað við hvernig þau hafa verið hingað til. Að þau haldi frekar aftur af hagkerfinu í mikilli uppsveiflu og séu í stakk búin til að örva það í mikilli niðursveiflu. Raunin hefur því miður oftast verið á hinn veginn í gegnum tíðina. Við höfum kynt hagkerfið í gegnum ríkisfjármálin þegar vel hefur árað og síðan þurft að draga verulega saman seglin og ekki haft neitt svigrúm, m.a. til opinberra framkvæmda, þegar þrengir að.

Ég ítreka enn og aftur að ég held að full ástæða sé til að horfa til varnaðarorða fjármálaráðs og verð reyndar að segja að einkunnagjöf fjármálaráðs á þessa fjármálastefnu er ekki góð. Hún myndi jafnvel teljast falleinkunn. En það verður að horfa til hennar, bæði af hálfu bæði meiri hluta og minni hluta, í því samhengi að við erum líka að reyna að læra í þessu ferli. Við þurfum að ná að nýta okkur fjármálastefnuna í þeim tilgangi sem hún er hugsuð, að tryggja að ríkisfjármálin styðji við hagstjórnina á hverjum tíma, hjálpi okkur við að halda verðbólgu niðri og gengi stöðugu.