150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

gjaldfrjálsar krabbameinsmeðferðir.

37. mál
[17:58]
Horfa

Flm. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur. Það er alveg hárrétt að við erum að nota kostnaðarsöm lyf. Ég ætla að leyfa mér að nota sjálfa mig sem dæmi. Þegar ég veiktist árið 2011 var ekki til það lyf sem ég er á í dag. Ég hef þann kost að vera skráð inn á göngudeild þegar ég fæ lyfið. Þar með greiði ég ekki fyrir það þó að það sé dýrt. Það úrval af lyfjum sem fólk hefur aðgang að hefur aukist. Það var stífla um tíma sem sneri að útboðum, sem ég veit að hv. þingmaður þekkir mætavel. Það sem ég hef rekist á er að þarna úti eru sjúklingar sem fá ávísað lyfjum í apóteki en þurfa síðan að finna sér heilbrigðisstofnun til að taka þessi lyf. Það eru karlar sem standa í þessu. Ég kann ekki sögur af því að viðkomandi afþakki að fara inn á göngudeild. Þetta er snúið en í öllu falli er alveg ljóst að meiri hluti sjúklinga er innskrifaður við lyfjagjöf. Þar með bera sjúklingar ekki nema örsmáan komugjaldskostnað en hann er þó mörgum ofviða þannig að þeir neita sér um annað sem óhjákvæmilega fylgir því að greinast með krabbamein.