150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

niðurfelling ábyrgða á eldri námslánum.

179. mál
[18:13]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um tillögu til þingsályktunar um niðurfellingu ábyrgða á eldri námslánum. Ég er einn af stuðningsmönnum tillögunnar og verð að taka undir að þetta er ein af þeim þingsályktunartillögum sem mér finnst nauðsynlegt að fá inn í þingið. Þegar við hugsum aftur í tímann er gamla fyrirkomulagið um ábyrgðarmenn eiginlega óskiljanlegt. Þar er verið að veðsetja afa og ömmu, maka, frænda, frænku fyrir námslánunum sem má segja að séu að mörgu leyti bara lán sem er svolítið happadrætti hvernig enda vegna þess að það er ekkert samasemmerki á milli þess að fá námslán, taka mikið af námslánum, vera í löngu námi og þeirra launa sem það skilar eftir á. Fyrir utan það að ef áföll verða á þeirri vegferð og viðkomandi námsmaður getur ekki staðið í skilum er auðvitað ótækt að verið sé að leggja fjárhagslega stöðu frændfólks eða jafnvel vina undir. Þess vegna segi ég að það er alveg frábært að þetta mál sé komið fram og ég vona heitt og innilega að það fari alla leið og að við getum lagt þetta að baki þannig að við sjáum aldrei það fyrirkomulag á lánveitingum að einhverjir eigi að ábyrgjast svona hluti og allra síst námslán, vegna þess að við erum að fjárfesta í framtíðarmenntun.

Við þurfum eiginlega líka að breyta námslánakerfinu. Það getur að mörgu leyti verið mjög íþyngjandi kerfi því að það er ekki hægt að garantera það hvaða laun viðkomandi námsmaður fær. Við vitum það líka og höfum séð það mörgum sinnum að oftast eru það konur sem lenda í lægri launaflokkum, fá lægri laun. Þær eru með langt nám að baki en eru samt liggur við rétt fyrir ofan lágmarkslaun. Það segir sig sjálft að þetta er íþyngjandi og hlýtur að vera sérstaklega íþyngjandi fyrir þá sem vita af því að á bak við ábyrgðina eru afi, amma, maki og fjárhagsleg afkoma þessa fólks getur verið undir. Það hlýtur að vera mjög íþyngjandi og á ekki að eiga sér stað. Ég styð því málið heils hugar og vona að það fljúgi í gegn.