151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

tekjufallsstyrkir.

212. mál
[18:14]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Mig langar að ræða um þetta frumvarp sem ég er hlynntur, enda skrifa ég undir nefndarálitið. Mig langar aðeins að fjalla um stóra samhengið og þann fyrirvara sem ég geri við frumvarpið og kannski nokkur atriði að lokum. Gerum okkur grein fyrir því að bæði þetta mál og málið sem var hér á undan eru viðbrögð við hrikalegu ástand í hagkerfi Íslands og eru tengd hremmingum sem eiga sér stað á heimsvísu. Þetta er lítil tilraun til þess að reyna að halda hjólum atvinnulífsins gangandi meðan á þessu stendur. Það er ótrúlega mikilvægt vegna þess að að því gefnu að við komumst út úr þessu ástandi munum við þurfa á fyrirtækjum landsins að halda til þess að bjóða upp á vörur og þjónustu sem fólk reiðir sig á. Ef fyrirtæki, sem eru mörg hver mjög lítil og í mörgum tilfellum einyrkjar, hafa ekki getu til að þola út þetta tímabil verður þeim mun erfiðara að koma öllu af stað aftur. Auðvitað erum við ekki bara að tala um þau fyrirtæki sem fólk horfir á sem þjóðhagslega mikilvæg. Við erum líka að tala um hluti sem skipta máli fyrir tilvist samfélagsins. Samfélagið mun ekki ganga bara á því að fólk fái mat og húsaskjól. Það þarf fleira til. Það þarf menningu og listir, það þarf hvers lags þjónustu. Þetta frumvarp gengur örlítið í rétta átt til að hlífa þeim sem hafa ýmissa ástæðna vegna ekki getað boðið upp á sína vöru og þjónustu meðan á þessum heimsfaraldri hefur staðið.

Mikilvægi frumvarpsins er algjörlega óumdeilt innan efnahags- og viðskiptanefndar og styð ég það, en engu að síður geri ég fyrirvara við málið. Hann snýst kannski ekki um aðgerðirnar þó svo að ég geri athugasemdir við þá nálgun sem ríkisstjórnin hefur kosið að taka í efnahagslegum viðbrögðum við þessu ástandi. Gagnrýni mín og fyrirvari minn snýr að því að hér er um að ræða enn eitt tilfellið þar sem er verið að setja þrep. Í frumvarpinu var miðað við að þau fyrirtæki, lögaðilar, einstaklingar og litlir lögaðilar í atvinnurekstri, sem hafa orðið fyrir 50% tekjufalli geti fengið stuðning. Sem betur fer var sátt um það í nefndinni að breyta þessu í 40% vegna þess að það er alveg eðlilegt að þeir sem hafa þolað minna tekjufall en 50%, geti í einhverjum tilfellum þurft aðstoð líka. En samt er 40% þrep. Þarna er verið að segja að allir þeir sem eru með 10% tekjufall fái ekki að vera með, 20%, 30%, 39,9% fá heldur ekki að vera með. Maður spyr sig hvort það geti ekki verið að einhver mikilvæg fyrirtæki eða jafnvel fyrirtæki sem kannski eru ekki endilega mikilvæg í þjóðhagslegum skilningi en eru mikilvæg fyrir það fólk sem vinnur þar, eða einyrkjar sem bjóða upp á mikilvægar vörur og þjónustu fyrir sig og samfélagið, sem hafa orðið fyrir 39% tekjufalli, eigi ekki jafn mikinn rétt og fyrirtæki sem rétt skríður yfir 40% mörkin.

Að sama skapi er í þessu frumvarpi ákveðin breyting gerð, sem ég held að sé góð. Ef farið er yfir 70% tekjufall þá hækkar sú fjárhæð sem er veitt á hvert stöðugildi. Það er ágætt, en af hverju ætti að vera öðruvísi farið með þá sem eru með 69,9% tekjufall og þá sem eru með 70% tekjufall? Hvers vegna getum við ekki búið til reiknireglur sem eru línulegar þannig að umfang stuðnings vaxi í hlutfalli við það tekjufall sem hefur orðið? Þetta er ekki flókinn útreikningur, þetta er ekki stærðfræði sem þyrfti að finna upp. Þetta er bara ákvörðun sem þyrfti að taka, ákvörðun um að í staðinn fyrir að vera að búa til endalaus þrepaföll og nota þau til að undanskilja fólk stuðningi, myndum við fara þá leið að gera þetta með eðlilegum og réttmætum hætti.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég sé svona í frumvörpum. Þetta er einhver lenska, held ég, hjá lögfræðingum án þess að ég vilji endilega skammast í þeim. En ég held að þetta sé ákveðin lögfræðinálgun sem þarf að fara að hætta. Hún er úti um allt, hvort sem við tölum um skattkerfið eða annars staðar í íslenskri löggjöf, endalaust af þrepaföllum sem búa til flækju. Þessi flækja er ekki eitthvert smámál vegna þess að það kom alveg fyrir á meðan við vorum að fara yfir þetta frumvarp, ég get alla vega sagt fyrir mig að ég var heilllengi að átta mig á því hverjir myndu nákvæmlega falla undir þetta og hverjir ekki. Ekki hjálpaði til að það eru nokkur þrep þarna og ýmiss konar flóknar reglur þar að auki um þátttökuskilyrði o.fl., sem gerir að verkum að það er erfitt að átta sig á því nákvæmlega fyrir hverja þetta er. Það er ekki gott. Það að við séum með tvö úrræði, þetta og frumvarpið sem var til afgreiðslu áðan, sem taka á einum samfelldum vanda með tveimur mismunandi háttum og það er ekki hægt að sjá í fljótu bragði hvar eitt úrræði endar og annað byrjar og hvort einhverjir falla á milli, er vandamál. Þetta er vandamál sem verður til vegna þess að við erum alltaf að búa til of flóknar reglur, við erum að búa til þessi þrepaföll o.fl.

Mér finnst þetta vera alvarlegur ágalli á frumvarpinu sem ég styð þó engu að síður vegna þess að þetta er betra en að gera ekki neitt og meira að segja miklu betra en að gera ekki neitt. Að því leyti sem þetta frumvarp hjálpar þá styð ég það auðvitað. En ég vil bara nota tækifærið til að biðla til ríkisstjórnarinnar og til allra lögfræðinga landsins og annarra sem halda að þrepaföll séu lausnin á vandamálum landsins að hætta þessu og byrja að gera hluti eftir einhverri línulegri aðferð.

Svo eru auðvitað nokkur atriði í viðbót. Bara til að hafa aðeins nefnt það, ekki síst vegna þess að hv. þm. Oddný G. Harðardóttir nefndi það og fór svolítið inn á það í sinni ágætu ræðu, þá erum við að nálgast vandamálin varðandi hagkerfi landsins út frá mjög fyrirtækjamiðaðri nálgun. Við reynum einhvern veginn að láta hlutina ganga eins og ekkert hafi í skorist með því að veita peningum inn í fyrirtæki frekar en að reyna að breyta því hvernig leikreglurnar eru. Og þetta er auðvitað ákvörðun sem var tekin snemma í þessum heimsfaraldri og virkaði ágætlega þá og var viðbragð, en eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir sagði þá er ákveðin vöntun á því á þessum tímapunkti, þegar við erum búin að vera í þessu ástandi í næstum því ár, að það sé eitthvert plan, efnahagslegt plan, um það hvernig við förum út úr þessu ástandi, ekki bara á tilteknu augnabliki heldur líka út frá þeim mjög svo mögulega möguleika að heimsfaraldurinn gæti haldið áfram í eitt, tvö, þrjú, fjögur, jafnvel fimm ár í viðbót. Við vitum það ekki. Það eru tíu mismunandi bóluefni komin á þriðja stig rannsókna sem þýðir að ef allt gengur vel þá munu þessi bóluefni fá vottun og komast út á markað fljótlega, sem er frábært, en jafnvel í besta tilfelli, ef öll þessi tíu bóluefni yrðu samþykkt núna í dag, erum við samt að tala um jafnvel sex mánuði þangað til að við erum komin með einhvern vísi að hjarðónæmi.

Við þurfum að fara að breyta hugsun okkar í samræmi við það að þetta er ekki sprettur að lækningu heldur er þetta langhlaup þar sem undirstöður efnahagskerfis okkar eru í húfi. Og ef við förum ekki að hugsa þetta með langtímalausnir í huga er hætt við því að við stöndum hér næsta sumar og verðum kannski komin í fimmta eða sjötta umgang af svona lausnum án þess að það sé nein raunveruleg lækning á undirliggjandi vanda í sjónmáli. Ég hef áhyggjur af því. Ég vona auðvitað að þetta vonda tilfelli, þ.e. að þessi frekar leiðinlega sviðsmynd sem ég er að teikna upp, raungerist ekki og við náum að leysa þetta hraðar, en það væri betra, það væri æskilegt að ríkisstjórn Íslands hefði á einhverjum tímapunkti undanfarna átta mánuði eða svo gefið sér tíma til að búa til raunsæja og trúverðuga lausn á þeirri sviðsmynd. Hún er kannski vond og það er óþægilegt að hugsa um hana en hún er ekki ólíkleg. Við þurfum svolítið að vera raunsæ með þetta. Ég vona að í næsta umgangi verði innbyggð meiri langtímahugsun, jafnvel að við endurskoðum eitthvað af þeim forsendum sem við gefum okkur um það hvernig hagkerfið virkar. En ég læt þar með staðar numið.