154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

álit umboðsmanns Alþingis og traust almennings á stjórnvöldum.

[15:07]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég kannski árétta spurninguna sem sneri að því að ráðherra sem gerist uppvís að því að bregðast sínum stjórnunar- og eftirlitsskyldum, hvort það séu ábyrg stjórnmál að hann gangi bara yfir í annað ráðuneyti og taki við stjórnunar- og eftirlitsskyldu þar, þegar álit umboðsmanns kemst skýrt að þeirri niðurstöðu að hann hafi ekki staðið undir þeim í fjármálaráðuneytinu, hvort það séu ábyrg stjórnmál.

Við skulum líta til þess að þegar það er búið að afgreiða það út af borðinu að Bankasýslan sé einhver sjálfstæð stofnun sem beri ein ábyrgð á sjálfri sér og ráðherrar hafi ekkert um að segja og það sé einhver armslengd þarna á milli, þegar því er sópað út af borðinu þá situr það eftir að jafnræðis var ekki gætt við þessa sölu, að upplýsingaskyldu var ekki fullnægt, að fjöldamargir aðrir ágallar voru á þessu söluferli öllu saman og að ráðherra bar stjórnunar- og eftirlitsskyldu gagnvart þessari stofnun sem hann brást.

Er það virkilega svo að bara til þess að þessi ríkisstjórn geti haldið áfram að selja þennan banka, (Forseti hringir.) að það sé einhvern veginn næg ástæða til þess að hann rölti svo bara yfir í annað ráðuneyti? (Forseti hringir.) Er honum treystandi til að vera ráðherra ef hann bregst eftirlits- og stjórnunarskyldum sínum? Og það er alveg skýrt.