154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[17:23]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða um búsetuúrræði fyrir fólk á flótta. Það er að sjálfsögðu alltaf flókið að takast á við það þegar hingað til lands eða hvert sem er kemur fullt af fólki á flótta. Í sumum löndum, t.d. í Afríku, eru settar upp flóttamannabúðir. Sumar hverjar hafa verið tímabundið þar, eins og t.d. flóttamannabúðirnar í Norður-Kenía sem settar voru upp 1991, en þangað hafa aðallega komið Sómalar sem hafa verið að flýja slæmt ástand í Sómalíu. Þar búa um þessar mundir um 500.000 manns í eyðimörk og á svæði sem ekki er mjög gefandi enda kannski valið vegna þess, rétt eins og við Íslendingar völdum staðsetningu fyrir herinn uppi á Miðnesheiðinni af því að þar var ekki mikið að fá á þeim tíma. En meira að segja í þessum flóttamannabúðum, sem uxu mikið fyrir um tíu árum síðan þegar mikil hungursneyð og styrjöld braust út í Sómalíu, eru gerðar ákveðnar kröfur og skilyrði sett. Það er vegna þess að alþjóðasamfélagið hefur komið sér saman um það hvers konar aðbúnaður getur talist vera minnsti mögulegi aðbúnaður fyrir fólk. Þar eru t.d. teknir fram hlutir eins og hversu mörg salerni þurfa að vera fyrir fólk sem er á flótta, hvort sem það eru flóttamenn eða fólk sem hefur orðið fyrir náttúruhamförum. Þar er til ákveðin tala; fyrir hverja 50 manns þarf ákveðið mörg salerni.

Hér erum við að tala um frumvarp sem gefur ákveðna tímabundna afslætti af okkar byggingarlöggjöf og skipulagslöggjöf. Ég get svo sem skilið það að við viljum ekki að hlutir þurfi að fara í gegnum hið flókna og langa ferli sem það að breyta skipulagi getur verið, þ.e. að breyta því hvort um atvinnuhúsnæði eða íbúðarhúsnæði er að ræða. Við höfum öll séð að það getur stundum tekið jafnvel nokkur ár eða áratugi að ná samkomulagi um slíkt. En þegar kemur að öryggi, hreinlætismálum og öðru slíku megum við alls ekki gefa afslátt. Ef við sjálf værum á flótta myndum við ekki vilja það væri gefinn afsláttur af því að okkar líf, bara af því að við værum á flótta, væri eitthvað minna virði heldur en annarra. Rétt eins og áðan var bent á í ræðu erum við þegar að eiga við alvarlegar afleiðingar þess að búið er í húsnæði sem ekki er skipulagt sem íbúðarhúsnæði. Við erum að sjá þessa stundina eldsvoða í iðnaðarhúsnæði þar sem 20–30 manns bjuggu. Við erum ekki að ná að halda utan um þetta vegna þess að það eru ansi margir sem búa hér á landi í húsnæði sem er ekki ætlað til íbúðar.

Nú ætlum við að gefa afslætti fyrir fólk sem kemur hingað og sækir um hæli, en hvað með alla hina sem hafa komið hingað og búa í slíku húsnæði nú þegar? Þar erum við líka að gefa ákveðna afslætti. Þar erum við ekki að horfa á byggingarlöggjöfina og skipulagið. Hvernig væri að taka til þar áður en við byrjun að gefa afslátt af þessu? Bara sem dæmi, þegar sett var upp sú fjöldahjálparstöð sem rekin er niðri í Borgartúni fyrir hælisleitendur sem koma til landsins, þá var t.d. farið í að skoða hvort það væru nógu mörg salerni, eins og ég nefndi áðan, vegna þess að þegar þú ert með fjöldahjálparstöð eru líka skilyrði um að hafa ákveðið mörg salerni per einstakling. Þannig tryggjum við að ekki brjótist út alls konar farsóttir, við tryggjum líka öryggi fólks með því að passa upp á aðgreiningu, hverjir fá að fara inn á hvaða klósett o.s.frv. Þetta eru allt saman mál sem skipta máli, líka fyrir fólk á flótta. Því er mikilvægt að við pössum það þegar þetta frumvarp fer inn í nefndarvinnuna að það sé virkilega að skoðað að hér sé ekki verið að gefa afslætti af öryggi eða heilsu fólks. Bara af því að það kemur annars staðar frá, bara af því að það talar ekki okkar tungumál, bara af því að það er ekki íslenskir ríkisborgarar sem kjósa okkur sem hér erum inni þá megum við aldrei gefa slíka afslætti, því að líf er líf alls staðar.