139. löggjafarþing — 150. fundur,  11. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[00:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir andsvarið. Hvað varðar þetta málefni er það eindregin afstaða mín að þegar litið er til þeirra gríðarlegu eignahagsmuna sem lífeyrissjóðirnir eiga hér í fjármálakerfinu og þar með þeirra hagsmuna sem þeir hafa af því að hér sé haldið uppi greiðsluvilja og lánasöfn fjármálastofnananna styrkt og bætt frá því sem nú er — þau eru því miður enn í óviðunandi ástandi eftir fjármálahrunið — þegar litið er til þeirra nærfellt 2 þús. milljarða hagsmuna sé þátttaka í kostnaði við jafnumfangsmiklar aðgerðir og aðgerðirnar í skuldamálum heimilanna, sem nema 1,5 milljörðum kr., sannanlega réttlætanleg út frá hagsmunum sjóðanna sjálfra einna og sér. Ávinningurinn fyrir fjármálakerfið allt og fyrir sjóðina sjálfa er ótvíræður.

Sjóðirnir hafa sjálfir hreyft því að í þetta verkefni mætti nýta hagnað af uppboðum á gjaldeyri sem nú eru hafin hjá Seðlabanka Íslands. Ég tek ekki afstöðu til þess, en telji sjóðirnir að þeir geti í frjálsum samningum ákveðið að fjármagna þann kostnað sem þeir hafa viðurkennt að til þeirra friðar heyri, 1,5 milljarða kr., þannig að við getum komist hjá því að skattleggja þá er það ekki annað en (Forseti hringir.) hið besta mál.