138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu.

19. mál
[11:22]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þinginu og iðnaðarnefnd fyrir að hafa lokið þessu máli og skilað því hingað inn í atkvæðagreiðslu og ég þakka hv. flutningsmanni fyrir að hafa komið með það inn í þingið vegna þess að þetta styður mjög vel við þá vinnu sem er verið að vinna núna varðandi skipulagsmál á hálendinu og líka varðandi það hvernig við ætlum að taka á móti auknum ferðamannastraumi í framtíðinni.

Verði þessi tillaga samþykkt af þinginu færir það okkur mikinn stuðning í þessum málaflokki frá þinginu öllu og þingheimi öllum. Ég vænti þess að héðan sé líka verið að senda skýr skilaboð um það að þingið ætli að styðja okkur og ferðaþjónustuyfirvöld í því að fara í hraða uppbyggingu á ferðamannastöðum á næstu árum og að þeim loforðum sem hér er verið að gefa muni fylgja efndir í formi fjármagns og frekari stuðnings á komandi árum.