138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands frá meiri hluta allsherjarnefndar. Í samræmi við starfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lagt til að ráðuneytum verði fækkað úr 12 í 9 og færð verði saman verkefni til að ná sem mestum samlegðaráhrifum. Markmiðið með stækkun ráðuneyta er jafnframt að gera þeim betur kleift að takast á við aukin og flókin stjórnsýsluviðfangsefni og tryggja form þeirra. Þá bjóða sameinuð ráðuneyti upp á meiri möguleika til sérhæfingar og meira bolmagn til nýsköpunar og þróunarstarfs eins og m.a. kemur fram í skýrslu starfshóps um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Í fjárlögum fyrir árið 2010 var gripið til aðgerða sem leiddu til 43 milljarða kr. lækkunar útgjalda frá því sem annars hefði orðið og við afgreiðslu á fjárlögunum var áætlað að samkvæmt markmiði ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum þyrfti að bæta afkomu ríkissjóðs um allt að 50 milljarða kr. á næsta ári. Fyrirsjáanlegt var að verulegur hluti afkomubatans á næsta ári yrði að koma til með lækkun ríkisútgjalda. Það er óþarft að fjölyrða um mikilvægi þess að útgjaldamarkmiðum fyrir árið 2010 og árin þar á eftir verði vel fylgt eftir en til þess að árangur náist þarf samstillt átak allra ráðuneyta og stofnana. Ljóst er að þær breytingar sem eru áformaðar á næstu missirum felast m.a. í því að fækka ráðuneytum og ríkisstofnunum með sameiningu og breytingu á skipulagi og er þetta frumvarp m.a. liður í þeim áformum.

Sameining ráðuneyta og stofnana auðveldar samþættingu ýmissar þjónustu og kemur í veg fyrir óskýra verkaskiptingu eða tvíverknað eins og dæmi hafa verið um, m.a. innan velferðarþjónustunnar.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ef það verður að lögum verður stofnaður stýrihópur með þátttöku ráðherra og verkefnisstjórn með þátttöku ráðuneytisstjóra, sérfræðinga og fulltrúa starfsmanna. Mikilvægur þáttur vinnunnar verður að ræða málið við samtök sem eiga hagsmuna að gæta, sérstaklega heildarsamtök, svo sem í iðnaði, landbúnaði og sjávarútvegi, stéttarfélög, félög forstöðumanna og sveitarfélögin. Þá verður þingflokkum boðið að tilnefna tengiliði til að fylgjast með vinnunni og koma sínum sjónarmiðum að.

Fram kom í greinargerð með frumvarpinu að ætlunin er að þessir aðilar muni einnig fylgja því eftir að fram fari allsherjarendurskoðun á þeim verkefnum sem viðkomandi ráðuneyti sinna og þeim stofnunum sem undir þau heyra. Þá verður farið heildstætt yfir verkaskiptingu innan Stjórnarráðs Íslands þannig að verkefni fleiri ráðuneyta en þeirra sem sameinast geta breyst.

Meiri hlutinn telur þörf á lengra samráðsferli áður en atvinnuvegaráðuneyti verður að veruleika og leggur því til breytingar á 1. gr. frumvarpsins þannig að ekki verði kveðið á um nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti að þessu sinni. Heiti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins munu því haldast óbreytt. Fyrir liggur að forsendur breytinga á hlutverki umhverfisráðuneytisins þannig að til verði umhverfis- og auðlindaráðuneyti tengjast stofnun nýs atvinnuvegaráðuneytis og verkaskiptingu milli þessara tveggja nýju ráðuneyta. Meiri hlutinn leggur því einnig til að sú breyting verði ekki gerð að þessu sinni, þ.e. að heiti umhverfisráðuneytisins verði óbreytt en unnið verði að stofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytis samhliða því samráðsferli sem fram undan er vegna atvinnuvegaráðuneytis. Meiri hlutinn leggur áherslu á að áfram verði unnið að undirbúningi og samráði vegna atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis þótt ekki sé lögð til afgreiðsla á þeim hluta málsins nú þannig að allar fyrirhugaðar ráðuneytabreytingar nái fram að ganga eigi síðar en áformað var samkvæmt frumvarpinu.

Það er skoðun meiri hlutans að í aðdraganda sameiningar ráðuneyta, í þessu tilviki sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis, geti verið heppilegt verklag að sami ráðherra gegni þeim ráðuneytum sem til stendur að sameina mánuðina áður en sameiningin á sér stað og stjórni því verki t.d. frá áramótum. Hið sama á við um þær sameiningar ráðuneyta sem meiri hlutinn leggur til að verði samþykktar núna, eins og raunar var gert við uppstokkun í ríkisstjórn í síðustu viku.

Meiri hlutinn leggur í tengslum við framangreindar breytingar til að gildistaka frumvarpsins verði um næstu áramót.

Undir þetta nefndarálit skrifa auk undirritaðs hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, Mörður Árnason, Ögmundur Jónasson og Valgerður Bjarnadóttir.