138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kaupi ekki frið við nokkurn mann nema þann sem óskemmtilegt er að eiga ófrið við. En um þær ræður sem hér hafa verið fluttar segi ég það eitt að hér vegast þeir á sem ég hirði ekki um hvor vegur annan.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson endurspeglar samlyndið í stjórnarandstöðunni með því að saka Framsóknarflokkinn um að láta kaupa sig frá ófriði við ríkisstjórnina og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir svarar fyrir sig og skýrir málið með því að tillögur sjálfstæðismanna séu vondar. Ég er algerlega ósammála því.

Ég kem aðallega upp til að hafna því sem hv. þingmaður Sigurður Kári Kristjánsson sagði, að núverandi hæstv. samgöngu-, dómsmála- (Gripið fram í: Manstu þetta ekki?) og mannréttindaráðherra nyti ekki stuðnings í Samfylkingunni. Hann nýtur meiri stuðnings í þingflokki Samfylkingarinnar heldur en einstakir þingmenn Sjálfstæðisflokksins nutu þegar þeir hófust til ráðherradóms í ríkisstjórn með Samfylkingunni vorið 2007, svo það liggi algerlega ljóst fyrir. Ég tel að mikill fengur sé að hæstv. ráðherra Ögmundi Jónassyni, bæði fyrir ríkisstjórnina og íslensku þjóðina. Ég tel hann með einum af öflugri þingmönnum sem hér sitja í dag.

Hitt er alveg rétt hjá hv. þingmanni að uppstokkun í liði ríkisstjórnarinnar er gerð til að styrkja hana. Það er eðli uppstokkana yfirleitt að það er ráðist í þær til að fá ferskt blóð, nýja krafta og styrkja innviðina. (Gripið fram í.) Ég rifja það upp að í Bretlandi var líftími ráðherra í embætti í tíð Blairs og þeirra tveggja sem á undan honum sátu 18 mánuðir. Ekkert óeðlilegt var við það þegar Sjálfstæðisflokkurinn hóf vegferð sína 2007 með því að lýsa því yfir, eins og Samfylkingin, að stefnt væri að ráðherrabreytingum á miðju kjörtímabili. Það var gert líka núna og menn eru að gera það. (Forseti hringir.) Það skiptir engu máli hvað einstakir þingmenn (Forseti hringir.) í þingflokki Samfylkingarinnar hafa verið að segja um ráðherra VG. Það er bara þannig að í þessu tilviki hafa Vinstri grænir algerlega (Forseti hringir.) fullkominn rétt til að skipa hvern þann sem þeir vilja ráðherra (Forseti hringir.) og þeir njóta alls stuðnings Samfylkingarinnar.