138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[17:46]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svör hans. Ég hef verulegar áhyggjur af því að hér verði samþjöppun valds of mikil og ef það nær fram að ganga sem að er stefnt og hæstv. forsætisráðherra hefur talað um, að búa til eitt atvinnuvegaráðuneyti þar sem iðnaðurinn, sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn er felldur undir vald eins ráðherra, þá held ég að gæti stefnt í óefni hjá okkur.

Ég hygg að ekki sé hægt að ræða um fækkun ráðuneyta og sameiningu þeirra öðruvísi en að tala um verkaskiptingu milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Ég hygg að þegar menn tala um að gera jafnróttækar breytingar og þeir láta í veðri vaka — en þeim hefur verið frestað að hluta til um einhverja mánuði — sé óhjákvæmilegt að Alþingi Íslendinga ræði hvort ekki þurfi þá að taka ákveðin skref í samhengi við þetta til þess einmitt að tryggja sjálfstæði löggjafans gagnvart framkvæmdarvaldinu og setja í raun frumkvæðið og völdin meira í hendur Alþingis, meira í hendur löggjafans en verið hefur, og þá hef ég kannski ekki svo miklar áhyggjur af því þó að ráðherrar séu tveir til þrír. Ef hin raunverulegu völd, lagasetningin, eru hér og ef Alþingi lætur af þeim ofnotuðu vinnubrögðum að afhenda ráðherrum reglugerðarvald vegna þess að lagasetning er mjög óskýr, svo framkvæmd laga fer í raun fram með reglugerðarvaldi ráðherra — þess vegna óttast ég mjög þegar t.d. er verið að afhenda einum ráðherra yfirráð yfir öllum atvinnuvegum landsins og 50% af ríkisútgjöldunum. (Forseti hringir.)