139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[10:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir að koma hingað upp og svara, það hafa ekki allir stjórnarþingmenn gert í þessu máli. Ég er meira og minna búin að hlusta á allar ræður bæði í þessu máli sem og því sem hefur verið til umræðu og bíður haustsins.

Hv. þingmaður segir að það verði að fara af stað með þetta frumvarp af því að beðið sé um það um allt land. Hvernig stendur þá á því að enginn getur sagt mér enn þá hvaða áhrif þetta hefur á byggðirnar? Af hverju er allt þetta rót fram eftir kvöldi og fram eftir nóttu? Það er út af því að enginn getur sagt nákvæmlega hvaða áhrif þetta hefur á byggðir landsins. Af hverju er ekki hægt að bíða þangað til við sjáum efnahagsleg áhrif þessara breytinga? Af hverju liggur mönnum svona mikið á? Ef menn segja að það skipti máli til að auka enn frekar strandveiðar — allt það sem við sjálfstæðismenn sögðum varðandi strandveiðar er rétt; það hefur sýnt sig að aukinn þrýstingur er að sá kvóti verði aukinn, ekki síst til þeirra einstaklinga sem hafa selt sig út úr greininni. Hvaða réttlæti er það? Hvaða nýliðun er það? Auðvitað er það engin nýliðun.

Það er enn og aftur það sem einkennir umræðuna og svör hv. stjórnarþingmanna fjalla um að þeir vilja fjölga störfum. Við höfum lýst viðhorfi þeirra með myndlíkingu: Hættum að binda heyið í rúllur, við skulum fara að nota orf og ljá aftur. Þannig á að fjölga störfum. Það er ósköp einfalt. Við heyjum, við náum heyinu inn kannski á fimm dögum í staðinn fyrir tveimur í dag með rúllunum. Störfunum fjölgar jú og fleiri hendur vinna þau en arðbærnin og hagkvæmnin er ekki sú sama.

Hvað viljum við sjálfstæðismenn? Við höfum margoft sagt að við erum reiðubúin með auðlindaákvæði í stjórnarskrá en það á að endurskoða veiðigjaldið. Það er í samræmi við það sem m.a. sumir þingmenn Samfylkingarinnar hafa talað um, á nákvæmlega á sömu nótum.

Menn vilja ekki láta reyna á sáttina. (Forseti hringir.) Og var haft samráð við okkur sjálfstæðismenn eftir að sáttanefndin hafði skilað? Nei, síður en svo.